„Siggi Sig er ómetanlegur“

Liðsmenn SA fagna í kvöld.
Liðsmenn SA fagna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jóhann Már Leifsson var að mati mbl.is besti maður úrslitakeppninnar í íshokkí karla sem lauk í kvöld. SA Víkingar lögðu Esju 6:2 í Skautahöllinni á Akureyri og kláruðu með því úrslitaeinvígið. Jóhann Már skoraði tvívegis í kvöld og átti auk þess þrjár stoðsendingar. Hann er búinn að fara hamförum á svellinu og samspil hans og Bart Moran var að skila Akureyringum aragrúa marka í einvíginu.

Til hamingju Jóhann. Þú ert búinn að vera svakalega beittur í þessu úrslitaeinvígi. Er einhver sérstök skýring á því?

„Ég er búinn að vera í fantaformi eftir áramót, get ekki neitað því. Ef ég á að segja eins og er þá er ég bara búinn að vera í miklu stuði. Ég er búinn að vera að hreyfa mig meira en í fyrra og það er að skila sér.“

Þið hafið einmitt verið að eflast eftir því sem liðið hefur á mótið. Esja var að vinna ykkur framan af en nú eru komnir fimm sigurleikir gegn þeim í röð.

„Þeir voru eitthvað smá á undan fyrri hluta mótsins en við áttum lengi vel leiki til góða og þeir voru aldrei að stinga neitt af. Það fór reyndar svo í lokin að við vorum tíu stigum á undan þeim þegar deildarkeppninni lauk. Það mátti alveg búast við jafnri úrslitakeppni og þótt við höfum unnið hana 3:0 þá segir það ekki allt um hvernig leikirnir spiluðust. Þetta var hörkueinvígi og fínt að við náðum að landa þessu í dag.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina hjá SA? Menn eru alltaf að velta því fyrir sér hvort þeir elstu og reyndustu séu ekki að fara að hætta þessu.

„Maður veit ekkert hvenær þessir eldri leikmenn ákveða að hætta. Þú sérð það að þeir spiluðu þrjá leiki á fimm dögum og voru ekkert þreyttir. Það er mjög gott að hafa þá. Þeir eru sterkir, kunna að vinna og eru alltaf að miðla til okkar yngri leikmannanna. Ég sjálfur er orðinn 24 ára og er alltaf að fá ráðleggingar frá þeim öldnu. Svo eru við alltaf að búa til leikmenn í yngri flokkunum og það koma nýir strákar inn í liðið á hverju ári. Barna- og unglingastarfið er gott svo að ég sé bara bjart framundan hjá okkur. Maður vonar bara að þessir gömlu hætti ekki allir í einu.“

Miðað við þinn aldur og þeirra þá áttu tuttugu ár eftir í hokkíinu.

„Já, ef ég mun endast jafn lengi og þeir.“

Þrátt fyrir allt þá er alltaf smá púsluspil að búa til lið á hverju hausti. Þið tínið inn leikmenn eftir þörfum og sumir eru hreinlega dregnir aftur í gang.

„Já. Við tókum markmann á lokadegi leikmannagluggans og svo gerðist það t.d. í vetur að við fengum löngu hætta menn til að koma á æfingar til að fylla upp í hópinn. Þeir bara komust í hörkuform og fóru að spila á ný. Rúnar Freyr Rúnarsson og Jón Benedikt Gíslason voru bara mjög mikilvægir fyrir okkur í þessu einvígi en þeir eru búnir að vera frá mislengi.“

Svo eruð þið með Sigga Sig. Hann er 42 ára og er settur inná þegar þið eruð manni færri.

„Ég veit ekki hvað ég get sagt um hann. Líklega er hann bestur í deildinni í face-off (þegar dómari lætur pökkinn í leik á ný eftir að hafa stöðvað leikinn). Hann vinnur þessi dómaraköst og við komum þá pökknum af hættusvæðinu. Hann er bara svo mikilvægur í því og kann allt sem viðkemur leiknum. Hann er bara ómetanlegur“ sagði Jóhann Már að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert