„Æðislegt að hafa Svía og Finna saman“

Leikmenn SA Víkings fagna eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.
Leikmenn SA Víkings fagna eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Andri Már Mikaelsson, fyrirliði Íslandsmeistara SA í íshokkí, var sigurreifur eftir 6:2 sigur á Esju. Sigurinn tryggði SA Íslandsmeistaratitilinn en liðið tapaði í úrslitum gegn Esju í fyrra.

Er ekki gott að fá bikarinn aftur norður eftir að hafa misst hann til Esjumanna í fyrra?

„Jú. Við vorum bara með klárt markmið fyrir þetta tímabil, að fá bikarinn heim. Það var sárt að tapa í fyrra og þeir unnu okkur 3:0 sem var ennþá sárara. Einvígin síðustu tvö ár hafa verið mjög jöfn þrátt fyrir að þau hafi bæði farið 3:0. Í ár var þetta svipað, leikirnir jafnir og það gat allt gerst. Við vorum kannski ferskastir í þessum leik en þessi sigur var alls ekkert þægilegur eða neitt slíkt. Aðalmálið var að vinna þennan leik og klára dæmið.“

Nú ert þú búinn að spila ófáa leiki í úrslitakeppni og yfirleitt eru þetta sömu gauranir sem þú ert að kljást við, margir félagar úr landsliðinu. Auðvitað verða árekstrar og menn takast á. Ég tók eftir því að þú vart mikið í refsiboxinu í síðasta leik.

„Já það er rétt. Ég er líklega búinn að fá fleiri refsimínútur í þessari úrslitakeppni heldur en á öllu tímabilinu. Líklega er það bara út af því að leikurinn verður harðari og ákafari. Það gerist svo í hita leiksins að menn hreyta einhverju í hvern annan en það er bara inni á ísnum. Það eru engin illindi utan vallar.“

Hvernig hefur tímabilið verið hjá ykkur?

„Við vorum bara vel undirbúnir í ár. Esja var með yfirhöndina á okkur framan af en við styrktumst eftir því sem leið á mótið, fengum menn til baka úr meiðslum og menn sem voru hættir. Það var stígandi hjá okkur allt mótið. Við erum loks komnir með almennilega breidd í liðið núna í endann og það skilar þessum titli. Svo hafa Jóhann Már og Bart algjörlega smollið saman á þessu ári. Þeir voru rosalega góðir í úrslitunum og reyndar fyrir úrslitakeppnina, þvílíkir leikmenn.“

Þið fenguð Svíann Tim Noting í markið hjá ykkur á lokadegi félagsskiptagluggans. Þjálfarinn ykkar er finnskur. Er hægt að hafa Finna og Svía saman í liði?

„Við erum með góða markmenn en það var mjög gott að fá Tim í markið hjá okkur. Hann er mjög góður og það er æðislegt að hafa Svía og Finna saman í liðinu. Það er svo gaman að hlusta á þá tvo babbla saman og skjóta á hvorn annan“ sagði Andri Már og var svo farinn inn í klefa til að fagna með sínum mönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert