Sá yngsti vill berjast um verðlaun

Axel Snær Orong­an er yngsti landsliðsmaðurinn í Tilburg.
Axel Snær Orong­an er yngsti landsliðsmaðurinn í Tilburg. mbl.is/Jóhann Ingi

„Mér líður vel og strákarnir taka vel á móti mér. Það er mjög gott að koma inn í þetta," sagði Axel Snær Orongan, yngsti meðlimur íshokkí landsliðsins í samtali við mbl.is í Tilburg í Hollandi. Þar tekur liðið þátt í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins. Axel er fæddur í mars árið 2001 og er því nýorðinn 17 ára. 

Liðið lék æfingaleik við hollenskt lið í fyrradag og skoraði Axel eina mark Íslands í leiknum. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem við keppum allir saman og það gekk ágætlega. Ég náði að skora og það gefur mikið sjálfstraust og er gaman."

Axel er aðeins einn af fjórum í landsliðshópnum spilar ekki á Íslandi. Hann leikur með U18 ára liði Falu, sem er í efstu deild aldursflokksins í Svíþjóð.

„Ég spila með Falu IF í Svíþjóð og við erum ágætir, þó þetta sé ekki topplið. Við erum í efstu deildinni í U18. Ég er búinn að vera í tvö ár þarna og er í skóla líka. Ég hafði samband við síðasta landsliðsþjálfara [Magnus Blårand]. Við spjölluðum og hann spurði hvort ég vildi fara út. Ég sagði já og hann reddaði þessu."

Spennandi að fara til Bandaríkjanna

Axel hefur fengið fyrirspurnir frá Bandaríkjunum og hefur hann áhuga á að fara í skóla þar í landi. 

„Ég er að fara að kíkja á eitt háskólalið í Bandaríkjunum og við sjáum hvað verður úr því. Það yrði mjög gaman að prófa eitthvað nýtt."

Leikmaðurinn ungi vonast til að Ísland geti barist um verðlaun á mótinu, en í riðli Íslands er Holland, Serbía, Belgía, Kína og Ástralía. 

„Ég mun reyna að gera mitt besta fyrir liðið. Maður vill skora mikið af mörkum og leggja upp, en þetta er lið og við gerum þetta allir saman. Við getum vonandi barist um einhver verðlaun. Við munum gera allt sem við getum," sagði Axel Snær Orong­an

Íslenska liðið fylgist með fyrirmælum Vladimir Kolek, landsliðsþjálfara í gær.
Íslenska liðið fylgist með fyrirmælum Vladimir Kolek, landsliðsþjálfara í gær. mbl.is/Jóhann Ingi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert