Búast allir við að þeir vinni

Íslenska liðið var svekkt í leikslok.
Íslenska liðið var svekkt í leikslok. Ljósmynd/Stefán Örn

„Þetta var í rauninni 1:0-leikur en svo missum við mann af velli í lokin og þeir skora á okkur þegar við erum manni færri og svo þegar við erum ekki með markmann. Þetta var nokkuð jafnt en við náðum ekki að nýta færin okkar," sagði Jussi Sipponen, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í íshokkí, í stamtali við mbl.is eftir 3:0-tap fyrir Ástralíu í fyrsta leik heimsmeistaramótsins í Tilburg í Hollandi. 

Dennis Hedström varði 36 skot í leiknum og var besti leikmaður íslenska liðsins. 

„Það var nóg að gera hjá honum og hann var góður. Það er það sem við viljum frá honum og það er það sem við fengum frá honum. Við munum ræða saman og bæta okkur. Við vorum svolítið eftir á í 1. leikhluta, en urðum betri í 2. leikhluta og í 3. leikhluta spiluðum við vel, en við náðum ekki að skapa færið sem við þurftum."

Hann segir stress hafa sett strik í reikninginn, enda margir ungir leikmenn í íslenska liðinu. 

„Á fyrstu fimm mínútunum, þess vegna vorum við á eftir þeim í 1. leikhluta. Þeir eru framtíðin og þeir munu læra. Til þess eru þeir hér."

Ísland leikur gegn Hollendingum annað kvöld, en Holland á að vera með sterkasta liðið í riðlinum. 

„Það verður erfiður leikur og það búast allir við að þeir vinni. Við verðum að taka okkur saman í andlitinu, halda okkur við leikskipulagið og skora einu marki meira en þeir," sagði Jussi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert