Fjörið hefst í Tilburg

Íslenska liðið fagnar marki gegn Áströlum í Rúmeníu í fyrra.
Íslenska liðið fagnar marki gegn Áströlum í Rúmeníu í fyrra. Ljósmynd/Sorin Pana

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí leikur sinn fyrsta leik í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í dag. Mótið fer fram í Tilburg í Hollandi og er Ástralía fyrsti andstæðingur Íslands. Leikurinn hefst kl. 13 að staðartíma, 11 að íslenskum tíma.

Íslenska liðið ætti að þekkja það ástralska býsna vel. Þjóðirnar hafa mæst sex sinnum og er staðan hingað til jöfn, þrír sigrar gegn þremur. 

Síðasti leikur þjóðanna fór fram á heimsmeistaramótinu í Galati í Rúmeníu í fyrra, en þá höfðu Ástralar betur eftir hörkuleik, 3:2. Ástralir komust í 2:0 en Ísland jafnaði með mörkum frá Robin Hedström og Steindóri Ingasyni. Paul Baranzelli skoraði hins vegar sigurmarkið í þriðja leikhlutanum.

Ástralar enduðu í 2. sæti riðilsins, stigi á eftir toppliði Rúmena. Ísland þarf að varast Josef Rezek, en hann var markahæstur Ástrala á mótinu með fimm mörk. 

Síðasti sigur Íslands á Ástralíu kom á heimavelli árið 2015. A-riðill 2. deildarinnar var þá leikinn hér á landi og vann Ísland 6:1-stórsigur. Þá skoraði Emil Alengårdt tvö mörk og þeir Egill Þormóðsson, Robin Hedström, Björn Róbert Sigurðarson og Ingþór Árnason eitt mark hver. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert