Feykisterkir heimamenn næstir á dagskrá

Frá leik Íslands og Hollands á Spáni.
Frá leik Íslands og Hollands á Spáni. Ljósmynd/Heimasíða hollenska íshokkísambandsins

Ísland leikur annan leik sinn í 2. deild heimsmeistaramótsins í íshokkí í Tilburg, Hollandi kl. 18 að íslenskum tíma í kvöld. Andstæðingar kvöldsins eru fyrirfram taldir sigurstranglegastir í þessum A-riðli, en það eru heimamenn í Hollandi. 

Holland féll úr 1. deildinni í fyrra, en undanfarin ár hefur Hollendingum gengið illa að tefla fram öllum sínum lykilmönnum. Ástæðan er sú að stór hluti leikmanna hollenska liðsins leika með Tilburg Tappers, sem leikur einmitt heimaleiki sína í keppnishöllinni. 

Tilburg Tappers er yfirleitt í úrslitakeppni á meðan mót sem þessi fara fram og vantar því oft 10-15 bestu leikmenn landsliðsins. Það hefur haft í för með sér fall um deild. Nú er tímabil Tilburg hins vegar búið og allir mæta til leiks í heimsmeistaramótið á heimavelli. 

Tilburg Tappers leikur í Þýskalandi, þar sem liðið hafði mikla yfirburði í deildinni heima fyrir. Þar er félagið hins vegar fast í C-deildinni, í einhvern tíma hið minnsta. Þýska íshokkísambandið samþykkti Tilburg yrði hluti af þýsku deildarkeppninni, með því skilyrði að liðið kæmi inn í 3. deildina og mætti ekki fara upp um deild fyrstu árin. Nú hefur Tilburg verið í þrjú ár í C-deildinni og unnið deildina á hverju ári, en ekki fær liðið að fara upp um deild. 

Holland vann eina leikinn til þessa

Ísland og Holland hafa einu sinni mæst í heimsmeistarakeppni. Það var á Spáni árið 2016 og hafði Holland þá betur, 3:0. Kevin Bruijsten og Raphael Joly skoruðu í þeim leik og eru þeir í hópnum í dag. Holland fékk hins vegar skell í 1. deildinni í fyrra og tapaði öllum leikjum sínum stórt og féll því niður um deild, en þá vantaði einmitt alla leikmenn Tilburg Tappers. 

Ísland tapaði fyrir Ástralíu í fyrsta leik í gær, 3:0 á meðan Holland vann sannfærandi 7:0-sigur á Kína. Giovanni Vogelaar og Ivy van den Heuvel skoruðu tvö mörk hvor og Raymond van der Schuit, Danny Stempher og Nardo Nagtzaam skoruðu eitt mark hver. Allir markaskorararnir nema van der Schuit spila með títtnefndu Tilburg Tappers. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert