Stefnum á að vinna leikina sem eftir eru

Andri Már Mikaelsson í baráttunni í kvöld.
Andri Már Mikaelsson í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Stefán Örn.

„Þeir voru með mjög sterkt lið, en ég veit ekki hvort þeir voru betri en ég bjóst við. Þeir voru mjög góðir í að nýta færin sem þeir fengu og þeir fengu mikið af færum," sagði Andri Már Mikaelsson, leikmaður íslenska landsliðsins í íshokkí eftir 11:1-tap á móti heimamönnum í Hollandi í 2. deild heimsmeistaramótsins. 

Þrátt fyrir stórt tap var eitthvað um jákvæða punkta, eins og fyrsta mark Íslands á mótinu. 

„Þetta var fyrsta markið á mótinu og við fengum einhver færi. Við vorum líka aðeins betri í að loka á uppspilið þeirra, það gekk aðeins betur í dag en í gær. Þeir áttu auðveldara með að komst upp í gær. Við erum aðeins að smella saman og við verðum góðir í næsta leik. Næstu leikir verða jafnir leikir og vonandi skemmtilegir. Við stefnum á að vinna alla leikina sem eftir eru."

Andri Már lagði upp eina mark Íslands í leiknum og hrósaði hann Axel Snæ Orongan sem skoraði. 

„Jói fékk ekki stoðsendinguna en hann sendi á mig og ég komst í hornið. Ég sendi á Axel sem gerði það sem hann er góður í, að koma sér í plássið fyrir framan markið. Hann er mjög góður að klára færin sín, hann er markaskorari. Hann er búinn að skora bæði mörkin okkar, í æfingaleiknum og svo aftur núna. Það er mjög gott að fá hann inn, hann er náttúrulega busi og var mjög flottur í fjarveru Robbie og var maður leiksins."

Andra lenti saman með Ryan Collier og var Hollendingurinn afar ósáttur við Andra eftir tæklingu. Andri tæklaði hann svo aftur skömmu síðar og ekki kættist hann við það. Að lokum voru þeir báðir reknir út af í tvær mínútur, eftir smávægileg slagsmál. 

„Þetta var bara íshokkí og það er gaman að þessu. Við vorum eitthvað búnir að ræða saman á undan og hann vildi meina að ég hafi verið vondur við sig," sagði Andri Már Mikaelsson. 

Andri Már og Ryan Collier heilsast í kvöld.
Andri Már og Ryan Collier heilsast í kvöld. Ljósmynd/Stefán Örn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert