Verðum hreinlega að vinna þennan leik

Íslenska liðið fagnar eina marki sínu á mótinu til þessa.
Íslenska liðið fagnar eina marki sínu á mótinu til þessa. Ljósmynd/Stefán Örn

„Hann er mjög mikilvægur. Við hreinlega verðum að vinna þennan leik," sagði Sigurður Sigurðsson, liðsstjóri íslenska karlalandsliðsins í íhokkí í samtali við mbl.is fyrir leik liðsins á móti Belgíu í 2. deild heimsmeistaramótsins í Tilburg í dag. 

Bæði lið töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum og væru þrjú stig því kærkomin í dag. Sigurður á von á jöfnum leik á milli tveggja liða sem eru svipuð að styrkleika. 

„Við höfum unnið Belgana áður, en við höfum ekki séð þá spila á mótinu. Við reiknum með jöfnum og hörðum leik. Það er erfitt að rýna í hvernig önnur úrslit eru. Hver leikur er sjálfstæð eining og Dennis var rosalega góður í markinu á móti Ástralíu. Við getum ekki fullyrt hvernig þetta fer. Þessi riðill er þannig að öll liðin eru jöfn og allir leikir eru jafnir. Sjálfstraustið fyrir þennan leik er hins vegar gott."

Ísland hefur aðeins skorað tvö mörk í keppninni til þessa og vill Sigurður sjá betri sóknarleik hjá íslenska liðinu. 

„Fyrst og fremst þurfum við að bæta sóknarleikinn. Við verðum að fá fleiri mörk. Við erum búnir að spila einn æfingaleik og tvo leiki í keppninni og bara skora tvö mörk. Axel er búinn að skora bæði mörkin okkar, en við þurfum fleiri mörk. Við vorum í nauðvörn eiginlega allan síðasta leik, svo það er kannski ekki að marka sóknarleikinn í honum. Við verðum hins vegar að fá fleiri tækifæri frammi því við vinnum ekki nema við skorum."

Með sigri kemur Ísland sér í möguleika á að berjast um verðlaun á mótinu. Tapist leikurinn hins vegar er íslenska liðið komið í fallbaráttu. 

„Ef við vinnum næstu þrjá leiki þá erum við að berjast um verðlaun, en auðvitað verðum við að taka einn leik í einu. Ef við vinnum þennan erum við nokkurn veginn búnir að tryggja okkur sæti í deildinni áfram. Svo eru næstu leikir á laugardaginn og sunnudaginn," sagði Sigurður að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert