Þetta er náttúrulega helvíti fúlt

Úlfar í leiknum á móti Kína í gær.
Úlfar í leiknum á móti Kína í gær. Ljósmynd/Stefán Örn

Úlfar Jón Andrésson, landsliðsmaður í íshokkí var svekktur eftir að ljóst varð að Ísland er fallið úr A-riðli 2. deildarinnar á heimsmeistaramótinu í íshokkí. Ísland hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum í riðlinum í Tilburg í Hollandi og þrátt fyrir að einn leikur sé eftir, getur Ísland ekki farið upp um sæti. Íslenska liðið tapaði fyrir Kína í gær, 3:1 í hreinum úrslitaleik í fallbaráttunni. 

„Við vorum óheppnir með færin okkar, við fengum mörg færi til að skora meira, en við nýttum þau ekki og svo skora þeir á meðan við erum manni færri og við náðum ekki að svara því á meðan við vorum manni fleiri. Þar var munurinn, annars var þetta mjög jafnt. Þeir skoruðu náttúrulega bara tvö mörk á okkur þannig séð, eitt er opið mark en það var mark engu síður."

Ísland leikur gegn Serbíu í dag og segir Úlfar liðið verða spila með höfuðið uppi, þrátt fyrir fall. 

„Þetta er náttúrulega helvíti fúlt en við spilum síðasta leikinn með hausinn uppi. Við höfum unnið Serba áður. Við verðum sterkir á næsta ári og förum aftur upp í þennan riðil og föllum ekki aftur."

Hann segir Ísland eiga heima í A-riðlinum og stefnir hann á að vinna sætið í riðlinum á ný, strax á næsta ári. 

„Við erum með flottan mannskap en við náðum ekki að láta þetta smella. Við erum með fullt af markaskorurum en þetta var ekki að rata á markið. Við erum með mjög ungt lið og það yngsta á mótinu. Við ætlum okkur upp aftur, við eigum heima í þessum riðli eða í 1. deild," sagði Úlfar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert