Miklar tilfinningar brjótast út í lok hvers móts

Ingvar Þór Jónsson
Ingvar Þór Jónsson Ljósmynd/Stefán Örn Sigurðsson

Ingvar Þór Jónsson, fyrirliði íshokkílandsliðsins, lék alla leiki Íslands í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins sem fram fór í Tilburg í Hollandi í lok síðasta mánaðar.

Ingvar hefur nú leikið 98 landsleiki og ekki enn misst úr A-landsleik frá því landsliðið var sett á laggirnar árið 1999.

Mótið í Tilburg gekk hins vegar ekki vel, því íslenska liðið tapaði öllum leikjum sínum og féll niður í B-riðilinn.

„Það er erfitt að falla og það er alltaf sárt. Við verðum að kalla þetta vaxtarverki. Liðið er að taka miklum breytingum, núna og á næstu árum. Reyndir menn hafa dottið út og snúið sér að öðru og í staðinn eru ungir menn að öðlast reynslu. Þeir eru nú reynslunni ríkari eftir þetta mót. Við munum bæta okkur,“ sagði Ingvar í samtali við Morgunblaðið.

Ingvar segir sóknarleik íslenska liðsins hafa orðið því að falli, en bætir við að það hafi verið möguleikar í þremur af fimm leikjum keppninnar.

Eigum heima í þessari deild

„Sóknarleikur okkar allra og þar með talið varnarmannanna var ekki nógu góður. Við héldum illa í pökkinn og vorum ekki nógu yfirvegaðir og því eyddum við meiri tíma í vörninni en við hefðum viljað. Þar getum við bætt okkur mikið. Við áttum hins vegar fullt erindi í þrjá leiki; á móti Serbíu, Kína og Belgíu. Þetta voru allt hörkuleikir og við náðum að skapa okkur færi á móti þessum liðum. Færin voru færri á móti Áströlum og Holland á heima í næstu deild fyrir ofan, en ég tel okkur eiga heima í sömu deild og hinir andstæðingarnir. Við verðum að koma okkur þangað sem fyrst aftur.“

Ísland leikur í riðli með Ísrael, Georgíu, Norður-Kóreu, Mexíkó og Nýja-Sjálandi á næsta ári. Ingvar segir stefnuna að fara aftur upp í A-riðilinn með sigri í þeim riðli.

„Það verður erfitt. Þar eru góð lið sem hafa unnið okkur og við þau. Við sjáum hvað gerist. Það yrðu mikil vonbrigði að vinna það ekki, en við þurfum að ná saman góðu liði og góðu þjálfarateymi og teymi í kringum liðið. Það þarf allt að ganga upp til að vinna þá deild. Kína var í þeirri deild í fyrra og Spánn núna. Þar eru hörkulið eins og Nýja-Sjáland og Mexíkó.“

Sjá allt viðtalið við Ingvar í íÞróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert