Sárt að tapa leiknum svona

Katrín Ómarsdóttir fór meidd af velli í kvöld.
Katrín Ómarsdóttir fór meidd af velli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingunn Haraldsdóttir, leikmaður KR, var ekki sátt við leik síns liðs í kvöld en það laut í lægra haldi fyrir baráttuglöðu liði FH, 2:1, í 3. umferð Pepsi-deildar kvenna í fótbolta. 

„Við ætluðum að koma inn í leikinn og stjórna honum og gerðum það fyrstu tíu mínúturnar. En svo var þetta jafn leikur, en það var erfitt að fá á sig svona ódýrt mark og erfið tímasetning í leiknum að missa hana út af,“ segir Ingunn um Katrínu Ómarsdóttur, sem hún heldur að hafi tognað í læri. Það eru ekki góðar fréttir fyrir Vesturbæinga.

„Marjani er hættuleg í kringum markið, er dugleg að refsa og við vissum það, þannig að þetta var extra svekkjandi. Svo í seinni hálfleik var þetta mikill ping-pong bolti og frekar erfiður leikur í lokin.“

„Mörkin voru ódýr og sárt að tapa leiknum svona. Það er bara að setja hausinn undir sig og mæta tilbúnar í leikinn við ÍBV í Eyjum á laugardaginn,“ segir Ingunn en hún er lykilleikmaður í vörn KR-liðsins.

mbl.is