Markasúpa í fyrsta leiknum

Tomas Nosek skorar síðasta mark leiksins í opið markið.
Tomas Nosek skorar síðasta mark leiksins í opið markið. AFP

Vegas Golden Knights tók í nótt forystuna í úrslitarimmunni um Stanley-bikarinn í NHL-deildinni í íshokkí. Vegas hafði betur 6:4 gegn Washington Capitals.  

Þær gætu sjálfsagt ekki verði mikið ólíkari borgirnar sem mætast í úrslitunum en miðað við markasúpuna í fyrsta leiknum gæti rimman orðið skemmtileg en bæði liðin stóðu sig vel í deildakeppninni í vetur. 

Vegas var 5:4 yfir og Tomas Nosek skoraði síðasta markið í opið mark Washington sem tók markvörðinn út af og freistaði þess að jafna. Colin Miller, William Karlsson, Reilly Smith og Ryan Reaves scored einnig fyrir Vegas sem lék á heimavelli. Marc-Andre Fleury varði 24 skot í markinu. 

Nicklas Backström skoraði og átti stoðsendingu hjá Washington. Brett Connolly, John Carlson og Tom Wilson skoruðu einnig fyrir Washington og T.J. Oshie átti tvær stoðsendingar. Braden Holtby varði 28 skot í markinu. 

Rússneska stjarnan Alex Ovechkin, fyrirliði Washington, er í úrslitum í fyrsta sinn en hann hefur þótt vera einn skæðasti leikmaður deildarinnar frá árinu 2004 þegar hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu. 

Ryan Reaves fagnar marki fyrir Vegas í nótt.
Ryan Reaves fagnar marki fyrir Vegas í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert