Jöfnuður kvenna og karla hjá Birninum

Leikmenn kvennaliðs Bjarnarins í leik á Íslandsmótinu.
Leikmenn kvennaliðs Bjarnarins í leik á Íslandsmótinu. mbl.is/Golli

Íshokkídeild Skautafélagsins Bjarnarins í Reykjavík hefur ákveðið að jafna alfarið aðstöðu leikmanna í meistaraflokkum karla og kvenna hjá félaginu.

Frá og með nýhöfnu keppnistímabili, 2018-2019, munu sömu reglur gilda um meistaraflokkslið félagsins og leikmenn kvennaliðsins þurfa ekki lengur að greiða æfingagjöld eða ferðakostnað, og fá líkamsræktarkort í World Class eins og leikmenn karlaliðsins.

Stefán Þórisson, stjórnarmaður í Birninum, sagði við mbl.is að á undanförnum árum hefði hallað verulega á meistaraflokk kvenna.

„Já, það hefur hallað á konurnar og við erum ekki stolt af því. Það er virkilega ósanngjarnt hversu erfitt það hefur verið að fá fyrirtæki til að styrkja kvennaíþróttir, ekki síst í jaðaríþrótt eins og íshokkíinu þar sem erfitt er að fá fjármagn inn í starfið í heild sinni,“ sagði Stefán.

„Ég held að það sé sama hvar gripið er niður í hópíþróttum, öll félög eru í vandræðum með að fjármagna reksturinn og vandinn er klárlega mun meiri hjá kvennaliðunum. Fyrirtæki hafa oft afsakað sig með því að þeirra auglýsingar sjáist ekki þar sem ekki horfi nægilega margir á kvennaíþróttir.

En okkur hjá Birninum hefur á síðustu árum tekist að koma rekstri félagsins á traustan grunn og sá árangur, sem við erum mjög ánægð með, gerir okkur kleift að ná þessu mikilvægasta markmiði sem við höfum stefnt að, að jafna út þann óréttláta mismun sem hefur verið á milli meistaraflokka karla og kvenna,“ sagði Stefán og kvaðst vonast til þess að sá áfangi sem nú hefði náðst myndi vera lyftistöng fyrir iðkun kvenna í íshokkíi hjá Birninum.

„Eins hvet ég fyrirtæki til að styðja við bakið á kvennaíþróttum og hjálpa til við að stöðva þá mismunun sem hefur alltof lengi verið ríkjandi gagnvart þeim,“ sagði Stefán Þórisson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert