Dramatískur sigur í fyrsta leik

Leikmenn Skautafélags Akureyrar fagna Íslandsmeistaratitli sínum.
Leikmenn Skautafélags Akureyrar fagna Íslandsmeistaratitli sínum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Skautafélag Akureyrar vann afar dramatískan 5:4-sigur gegn búlgörsku meisturunum í Irvis-Skate í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópubikars félagsliða í íshokkí í Sófíu í Búlgaríu en SA hafði betur í vítakeppni. Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir íslenska liðið en Irvis-Skate komst í 2:0 snemma leiks en Rúnar Rúnarsson minnkaði muninn fyrir SA á 17. mínútu og Ingvar Jónsson jafnaði metin fyrir SA undir lok fyrsta leikhluta.

Sigmundur Sveinsson skoraði eina mark annars leikhluta og kom SA yfir, 3:2, og Hafþór Sigrúnarson kom íslenska liðinu í 4:2 í upphafi þriðja leikhluta. Stanislav Muhachev minnkaði muninn fyrir búlgörsku meistarana á 48. mínútu og Andrei Thiurin jafnaði metin fyrir Irvis-Skate undir lok leiksins og staðan því jöfn eftir venjulegan leiktíma.

Því var gripið til framlengingar þar sem hvorugu liðinu tókst að skora. Í vítakeppninni hafði íslenska liðið svo betur en þeir  Thomas Stuart-Dant og Andri Mikaelsson skoruðu fyrir SA í vítakeppninni en Adam Beukeboom, markmaður SA, átti stórleik í markinu og varði öll skot búlgarska liðsins sem skoraði ekki mark í vítakeppninni.

Fyrsti sigur íslenska liðsins því staðreynd en SA mætir tyrk­nesku meist­urunum í Zeyt­in­burnu frá Ist­an­búl á mirgyn og á sunnu­dag leikur liðið við ísra­elsku meist­ar­ana Bat Yam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert