Fyrstu Evrópuleikir SA

Leikmenn Skautafélags Akureyrar.
Leikmenn Skautafélags Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar Skautafélags Akureyrar í íshokkíi karla eru komnir til Sofíu, höfuðborgar Búlgaríu, þar sem þeir hefja keppni í dag í undankeppni Evrópubikars félagsliða.

Það er næststærsta keppnin í Evrópu en fyrir ofan hana er Meistaradeild Evrópu með 32 bestu liðunum. Þangað komast sigurvegararnir í Evrópubikarnum ár hvert.

SA er eitt sautján liða í Evrópubikarnum og eitt þeirra fjögurra sem taka þátt í fyrstu umferðinni. Fyrsti andstæðingurinn er lið heimamanna, búlgörsku meistararnir Irbis-Skate. Á morgun er leikið við tyrknesku meistarana Zeytinburnu frá Istanbúl og á sunnudag við ísraelsku meistarana Bat Yam. Sigurvegarinn í þessum riðli kemst í 2. umferð og fer þar í riðil sem er leikinn í Riga í Lettlandi 19.-21. október. Þar verða meistaralið Úkraínu, Lettlands og Spánar, ásamt sigurliði helgarinnar í Sofíu. Leiknar eru þrjár umferðir í undankeppninni áður en lokakeppni fjögurra bestu liðanna fer fram um miðjan janúar.

„Við gerum okkar besta og vonandi náum við góðum árangri. Það er alltaf stefnan hjá okkur. En þetta verður skemmtileg upplifun og sömuleiðis skemmtilegur undirbúningur fyrir Íslandsmótið. Esjan reið á vaðið í fyrra og við erum að prófa þetta núna,“ sagði Sigurður Sveinn Sigurðsson, liðsstjóri SA og fyrrverandi leikmaður liðsins, þegar Morgunblaðið náði sambandi við hann í gær.

Sjá allt viðtalið við Sigurð í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert