Mikil áskorun framundan

Ingvar Þór Jónsson í leik með SA.
Ingvar Þór Jónsson í leik með SA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslandsmeistarar í íshokkí karla í Skautafélagi Akureyrar takast í dag á við nýja áskorun þegar þeir hefja leik í 2. umferð Evrópubikarsins í Lettlandi.

Á miðvikudag ferðuðust Akureyringar með rútu og flugvél frá Akureyri til Riga. „Það er reyndar mjög heppilegt að hægt sé að komast frá Keflavík til Riga í beinu flugi. Þegar við fórum til Búlgaríu fyrir nokkrum vikum þá þurftum við að millilenda og það tekur meira á,“ sagði einn reyndasti leikmaður SA, Ingvar Þór Jónsson, þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær.

Dagurinn var tekinn snemma á miðvikudaginn til að komast keyrandi frá Akureyri til Keflavíkur og var komið á keppnisstaðinn um kvöldið. Í gær fengu Akureyringar eina æfingu á ísnum til að ná úr sér ferðaþreytunni og stilla strengina.

Andstæðingar SA í keppninni eru frá Lettlandi, Úkraínu og Spáni. Ingvar segir Akureyringa ekki þekkja liðin vel en hafa þó séð eitthvað til þeirra á netinu. SA kom nokkuð á óvart með því að vinna sinn riðil í Búlgaríu í 1. umferð. Andstæðingarnir voru frá Ísrael, Búlgaríu og Tyrklandi.

Strembið verkefni

Nú blasir við að sögn Ingvars að um mun sterkari andstæðinga er að ræða. „Ef við miðum við hvar landslið þjóðanna standa þá hefur Lettland stundum verið í efstu deild á HM. Hér er töluverð hokkímenning en Lettar hafa verið sterkari en Litháar og Eistar á undanförnum árum. Landslið Úkraínu hefur verið í næstefstu deild en við höfum nokkrum sinnum verið í deild með Spánverjum síðustu árin. Þeir hafa oftast haft betur gegn okkur,“ sagði Ingvar.

Sjá allt viðtalið við Ingvar Þór í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert