SA byrjar vel

Karítas Halldórsdóttir markmaður Reykjavíkur átti stórleik og verst hér Kolbrúnu …
Karítas Halldórsdóttir markmaður Reykjavíkur átti stórleik og verst hér Kolbrúnu Garðarsdóttur úr Skautafélagi Akureyrar. Ljósmynd/Gunnar Jónatansson

Fyrsti leikur á Íslandsmóti kvenna í íshokkí, Hertz-deildinni, fór fram í gærkvöld í Laugardalnum þegar áttust við lið Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar. Leikurinn var hinn skemmtilegasti og lauk með sigri Skautafélags Akureyar 6:2.

Gestirnir hófu leikinn af krafti í fyrstu lotu þegar Silvía Björgvinsdóttir reið á vaðið með marki á 7. mínútu og Kolbrún Garðarsdóttir bætti við öðru marki stuttu síðar eftir stoðsendingu frá Ragnhildi Kjartansdóttir.  Skautafélag Akureyar var töluvert meira í sókn í lotunni en þó náði Reykjavíkavíkurliðið að setja eitt mark af bláu línunni og var þar að verki Sigrún Árnadóttir.

Í annarri lotu kom Reykjavíkurliðið sterkt inn þegar þær skoruðu þegar 29 sekúndur voru liðnar og staðan orðin 2:2, var það samspil þeirrar Kristínar Ingadóttur og Steinunnar Sigurgeirsdóttur sem kom pekkinum í net gestanna. Mörk Reykjavíkurliðsins urðu þó ekki fleiri í leiknum en norðankonur skoruðu 3 mörk í lotunni. Díana Björgvinsdóttir var með eitt mark og Berglind Leifsdóttir með tvö.

Í upphafi þriðju lotu var staðan orðin 5:2 Skautafélagi Akureyrar í vil. Þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar skoraði svo Kolbrún Garðarsdóttir sitt annað mark og síðasta mark leiksins. Fallegt mark þegar heimaliðið var einum leikmanni færri.

Lokatölur leiksins voru 6:2 en að öðru leyti var þriðja lota tíðindalítil en líkt og í hinum lotunum herjuðu norðanstúlkur mikið á mark Reykjavíkur. Markmaður Reykjavíkur varðist af miklum móð og segja má að af öllum öðrum leikmönnum ólöstuðum var það hún sem hélt Reykjavíkurliðinu inní leiknum, með 52 varin skot.  Þar var að verki fyrrum landsliðsmarkvörður, Karítas Halldórsdóttur, sem er að koma til baka eftir langt frí en virðist engu hafa gleymt.

Mörk og stoðsendingar:

Reykjavík:

Steinunn Sigurgeirsdóttir 0/2
Sigrún Árnadóttir 1/0
Kristín Ingadóttir 1/0
Lena Arnarsdóttir 0/1

Skautafélag Akureyar:

Silvía Björgvinsdóttir 1/2
Ragnhildur Kjartansdóttir 0/3
Kolbrún Garðarsdóttir 2/0
Díana Björgvinsdóttir 1/0
Berglind Leifsóttir 2/0

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert