Ísland skoraði tíu mörk gegn Suður-Afríku

Silvía Björgvinsdóttir (t.h.) í leik með íslenska landsliðinu.
Silvía Björgvinsdóttir (t.h.) í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íslenska kvennalandsliðið í íshokkí hóf í dag keppni í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Zagreb í Króatíu með miklum glans. Liðið gerði sér lítið fyrir og vann 10:1-stórsigur á Suður-Afríku.

Silvía Björgvinsdóttir skoraði þrennu fyrir Ísland og Hilma Bergsdóttir skoraði tvö mörk.

Einnig komust Sigrún Árnadóttir, Brynhildur Hjaltested, Sunna Björgvinsdóttir, Katrín Björnsdóttir og Gunnborg Jóhannsdóttir á blað hjá íslenska liðinu.

Ísland komst í 10:0 áður en Donne van Doesburgh náði að skora sárabótamark fyrir Suður-Afríku undir lokin.

Íslenska liðið á næst leik gegn Tyrklandi í B-riðlinum. Fer hann fram næstkomandi fimmtudag.

mbl.is