Fjölnir hafði betur í upphafsleiknum

Úr leik SR og Fjölnis á síðasta tímabili.
Úr leik SR og Fjölnis á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir vann góðan 7:3-sigur á SR þegar liðin áttust við í upphafsleik úrvalsdeildar kvenna í íshokkí, Hertz-deildinni, í Skautahöllinni í Laugardal í kvöld.

Fjölnir náði 2:0-forystu í fyrsta leikhluta og að loknum öðrum leikhluta var staðan 4:2.

Í þriðja og síðasta leikhluta hertu Fjölniskonur enn frekar tökin og unnu að lokum sterkan fjögurra marka sigur.

Sigrún Árnadóttir skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö fyrir Fjölni og Kolbrún Garðarsdóttir skoraði sömuleiðis tvö mörk fyrir liðið og lagði upp annað.

Elín Alexdóttir, Elísa Sigfinnsdóttir og Laura Murphy komust einnig á blað hjá Fjölni. Elín lagði þá upp tvö mörk og Elísa eitt.

Brynhildur Hjaltested skoraði tvö marka SR og Alexandra Hafsteinsdóttir eitt.

Á morgun mætast SR og Fjölnir aftur, en þá í upphafsleik úrvalsdeildar karla, Hertz-deildarinnar.

mbl.is