Króatarnir of sterkir fyrir SA Víkinga

Andri Mikaelsson skoraði fyrra mark SA Víkinga í dag.
Andri Mikaelsson skoraði fyrra mark SA Víkinga í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

SA Víkingar máttu sætta sig við 2:6-tap fyrir króatíska liðinu KHL Sisak þegar liðin mættust í öðrum leik fyrstu um­ferðar Evr­ópu­keppni fé­lagsliða karla í ís­hokkí í Sofiu í Búlgaríu í dag.

Sisak var með 2:0-forystu að loknum fyrsta leikhluta og komst í 4:0 í öðrum leikhluta áður en Andri Mikaelsson minnkaði muninn fyrir SA Víkinga eftir sendingu Jóhanns Leifssonar skömmu áður en honum lauk.

Í þriðja leikhluta bætti Sisak svo við tveimur mörkum til viðbótar áður en Birkir Einisson minnkaði muninn stuttu fyrir leikslok eftir sendingu Baltasars Hjálmarssonar og þægilegur fjögurra marka sigur Sisak því niðurstaðan.

SA Víkingar unnu fyrsta leikinn í fyrstu umferðinni í gær, 6:5, gegn heimamönnum í NSA Sofia eftir framlengdan leik og bráðabana.

Á morgun mæta SA Víkingar svo Tartu Valk frá Eistlandi í þriðja leik fyrstu umferðar.

Aðeins efsta liðið í fjögurra liða riðlinum sem SA Víkingar fer áfram í aðra umferð og þar verður topplið Sisak að teljast líklegt til þess að tryggja sér sigurinn í honum með fullu húsi stiga, en það mætir NSA Sofia á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert