Fjölnir ekki í vandræðum með SR

Úr leik SR og Fjölnis á síðasta tímabili.
Úr leik SR og Fjölnis á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölnir vann öruggan 5:1-sigur á SR þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í íshokkíi, Hertz-deildinni, í Skautahöll Reykjavíkur í kvöld.

Eva Hlynsdóttir kom Fjölni yfir eftir tæplega fjögurra mínútna leik og Sigrún Árnadóttir tvöfaldaði svo forystuna þegar tæplega stundarfjórðungur var liðinn af leiknum.

Staðan eftir fyrstu lotu var því 2:0, Fjölni í vil.

Í annarri lotu skoraði Teresa Snorradóttir þriðja mark Fjölnis og Elísa Sigfinnsdóttir bætti við fjórða markinu skömmu síðar.

Skömmu fyrir lok annarrar lotu minnkaði Arna Friðjónsdóttir muninn fyrir SR og staðan því orðin 4:1.

Í þriðju og síðustu lotu skoraði Sigrún annað mark sitt og fimmta mark Fjölnis og þar við sat.

Með sigrinum fór Fjölnir upp í toppsæti deildarinnar þar sem liðið er nú með níu stig eftir fjóra leiki.

SR er á botninum án stiga en SA er í öðru sæti með sex stig eftir tvo leiki, á tvo leiki til góða á Fjölni og getur því endurheimt toppsætið með hagstæðum úrslitum í þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert