SR lagði Fjölni í 13 marka leik

Viktor Svavarsson og Ómar Söndruson í leik Fjölnis og SR …
Viktor Svavarsson og Ómar Söndruson í leik Fjölnis og SR fyrr í haust. mbl.is/Hákon Pálsson

SR hafði betur gegn Fjölni, 8:5, í æsilegum leik í úrvalsdeild karla í íshokkíi, Hertz-deildinni, á skautasvellinu í Egilshöll í gærkvöldi.

Níels Hafsteinsson kom SR í forystu snemma og Ævar Arngrímsson tvöfaldaði forystuna seint í fyrstu lotu.

Kristján Kristinsson minnkaði muninn fyrir Fjölni skömmu síðar en Styrmir Maack bætti við þriðja marki SR áður en fyrsta lota var úti. Staðan var því 3:1, SR í vil, að henni lokinni.

Ævar kom SR í 4:1 í upphafi annarrar lotu. Falur Guðnason svaraði hins vegar með tveimur mörkum fyrir Fjölni með stuttu millibili og staðan var þá skyndilega orðin 4:3.

Styrmir bætti við sínu öðru marki og Daníel Magnússon komst einnig á blað hjá SR og staðan því orðin 6:3 áður en Martin Simanek minnkaði muninn fyrir Fjölni.

Staðan var þá 6:4 að annarri lotu lokinni.

Róbert Pálsson minnkaði muninn í 6:5 í þriðju og síðustu lotu en lengra komust heimamenn í Fjölni ekki þar sem Þorgils Eggertsson komst á blað hjá SR áður en Styrmir fullkomnaði þrennu sína.

Lokatölur urðu því 8:5.

SR er áfram í öðru sæti deildarinnar eftir sigurinn, nú með 11 stig.

Fjölnir er hins vegar í þriðja og neðsta sæti með fjögur stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert