Auðvelt hjá Fjölni gegn SR

Sigrún Árnadóttir, hér í leik með íslenska landsliðinu, skoraði þrennu …
Sigrún Árnadóttir, hér í leik með íslenska landsliðinu, skoraði þrennu fyrir Fjölni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fjölnir vann öruggan 8:1-sigur á SR þegar liðin áttust við á Íslandsmóti kvenna í íshokkíi, Hertz-deildinni, í Egilshöll í kvöld.

María Kristjánsdóttir kom Fjölni yfir strax í upphafi leiks en skömmu síðar jafnaði Guðbjörg Grönvold metin fyrir SR.

Ekki leið á löngu þar til Sigrún Árnadóttir hafði komið Fjölni í forystu á ný og áður en fyrsta lota var úti skoraði Elísa Sigfinnsdóttir þriðja mark heimakvenna.

Önnur lota var tíðindalítil en jók Elin Darkoh forskot Fjölnis skömmu áður en henni lauk.

Í þriðju og síðustu lotu gengu Fjölniskonur enn frekar á lagið og bættu við fjórum mörkum.

Sigrún skoraði tvívegis og fullkomnaði þannig þrennuna auk þess sem Kolbrún Garðarsdóttir og Kristín Ingadóttir komust á blað.

Eftir sigurinn er Fjölnir áfram á toppi deildarinnar, nú með 15 stig eftir sex leiki. SA er í öðru sæti með 6 stig en á fjóra leiki til góða.

SR rekur lestina án stiga á botninum eftir að hafa leikið sex leiki.

mbl.is