Íslenska landsliðið í íshokkí skipað leikmönnum 20 ára og yngri tapaði fyrsta leik sínum á Heimsmeistaramóti U20 landsliða í dag en liðið lék á móti Spáni. Lokatölur urðu 2:0 fyrir Spánverja.
Mótið fer að þessu sinni fram í Serbíu og var leikur Íslands og Spánverja jafn og spennandi. Fyrsta mark Spánverja kom undir lok annars leikhluta en þá skoraði Eduardo Gonzalez. Það var síðan Bosco Collado sem skoraði seinna markið um miðbik þriðja leikhluta.
Þetta var fyrsti leikur Íslands á mótinu en ásamt Spánverjum er Ísland með Serbum, Belgum, Ástralíumönnum og Ísraelsmönnum í riðli.
Næsti leikur Íslands er á morgun gegn heimamönnum í Serbíu.