Golden State lagði meistaraliðið

Tony Parker og Baron Davis.
Tony Parker og Baron Davis. Reuters.

Stephen Jackson skoraði 12 af alls 29 stigum sínum í framlengingu þegar lið hans Golden State Warriors lagði meistaralið San Antonio Spurs, 130:121, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. San Antonio var með 6 stiga forskota þegar aðeins 47 sekúndur voru eftir af leiknum. Baron Davis fór á kostum í liði Golden State en bakvörðurinn skoraði 34 stig og gaf að auki 14 stoðsendingar. Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem San Antonio tapar gegn Golden State.

Jackson var í liði San Antonio árið 2003 þegar liðið varð meistari en hann hitti úr tveimur þriggja stiga skotum og tveimur vítaskotum á 56 sekúndna kafla í framlengingunni. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1996-1997 þar sem að Golden State hefur betur gegn San Antonio í báðum viðureignum liðanna í Oakland í Kaliforníu.

Tim Duncan var stigahæstur í liði San Antonio með 32 stig og 13 fráköst en hann lék ekki með San Antonio í síðasta tapleik liðsins gegn Golden State þann 11. október s.l. Franski landsliðsmaðurinn Tony Parker var með 31 stig og 8 stoðsendingar í liði San Antonio.

San Antonio: Tim Duncan 32, Tony Parker 31, Manu Ginobili 20, Michael Finley 14, Ime Udoka 13, Bruce Bowen 6, Robert Horry 3, Matt Bonner 2.

Golden State: Baron Davis 34, Stephen Jackson 29, Kelenna Azubuike 16, Monta Ellis 16, Andris Biedrins 13, Mickael Pietrus 13, Al Harrington 9.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert