Flake fór á Krókinn

Darrel Flake í Tindastól.
Darrel Flake í Tindastól. Árni Sæberg
Úrvalsdeildarlið Tindastóls í körfuknattleik karla gekk í gær frá samningi við bandaríska leikmanninn Darrell Flake að því er fram kom á heimasíðu félagsins og mun hann leika með liðinu á komandi leiktíð.

Flake var í vikunni sagt upp samningi við nýliða Breiðabliks en eins og fram hefur komið hafa félögin í Iceland Express-deildinni þurft að grípa til þeirra aðgerða í því ástandi sem nú ríkir að segja upp samningum við erlenda leikmenn.

Flake er íslenskum körfuboltaáhugamönnum að góðu kunnur en hann hefur tvö undanfarin ár leikið með Skallagrími í Borgarnesi, þar áður var hann í herbúðum Fjölnis en feril sinn hér á landi hóf hann hjá KR.

Flake skoraði að meðaltali 23,9 stig í leikjum Skallagríms á síðustu leiktíð og tók 13 fráköst og víst er að hann verður Sauðkrækingum góður liðsstyrkur.

gummih@mbl.is