KR sigraði eftir fjórar framlengingar

Jakob Örn Sigurðarson er lykilmaður í liði KR.
Jakob Örn Sigurðarson er lykilmaður í liði KR. mbl.is/Kristinn

KR sigraði Keflavík 129:124  í ótrúlegum leik í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld. Úrslitin réðust ekki fyrr en eftir fjórar framlengingar. KR tryggði sér sigur í einvíginu, 3:0, og mætir Grindavík eða Snæfelli í úrslitum. Fylgst var með gangi mála í textalýsingu á mbl.is.

Viðtal við Benedikt Guðmundsson þjálfara KR:

Viðtal við Sigurð Ingimundarson þjálfara Keflavíkur:

Tölfræði leiksins á kki.is.

Fjórðu framlengingu er lokið, 129:124:

5. mín: Jason fær sína 5. villu. Staðan er 126:124. 57 sekúndur eftir.

3. mín: Rosa skorar og fær víti að auki. Staðan er 123:122 fyrir Keflavík og Rosa er með 50 stig.

2. mín.: Jason skorar fyrstu 4 stigin í þessari fjórðu framlengingu og staðan er 122:118 fyrir KR. 3:25 mín eftir. 

1. mín: Sigurður Þorsteinsson fékk sína 5. villu í liði Keflavíkur.

Þriðju framlengingu er lokið, 116:116:

5. mín: Það er ekkert verið að grínast með þetta í DHL-höllinni. Það er enn jafnt og fjórða framlenging er að hefjast. Staðan er 116:116.

4. mín: Rosa skorar úr tveimur vítum fyrir Keflavík. 45 stig hjá Rosa og staðan er 116:114 fyrir Keflavík.

4. mín: Staðan er jöfn 114:114. 

3. mín: Staðan er 114:112 fyrir KR. Allt á suðupunkti í DHL-höllinni. Alveg magnað.

1. mín: Sóknarbrot á Jón Arnór, hans 5. villa og staðan er 110:110.

Annarri framlengingu er lokið, 108:108.

5. mín: Og hvað haldið þið. Jón Arnór Stefánsson skoraði þriggja stiga körfu fyrir KR úr erfiðri stöðu. Staðan er jöfn 108:108 og þriðja framlengingin er að hefjast.

5. mín: Rosa lenti í vandræðum undir körfunni og henti boltanum út á Gunnar Stefánsson sem skoraði þriggja stiga körfu fyrir Keflavík. Staðan er 108:105 fyrir Keflavík og 6 sekúndur eftir af leiknum.

3. mín: Staðan er 105:103 fyrir KR.

2 mín: Jón Arnór skorar á ný en Keflavík svarar. Staðan er 105:99.  Sigurður Ingimundarson tekurleikhlé enda er útlitið dökkt hjá Íslandsmeistaraliðinu.
1. mín:
Helgi Magnússon kemur KR í 99:97. Jón Arnór bætir við tvemur stigum. Staðan er 101:97.

Framlengingu lokið, 97:97: 

5 mín: Staðan er jöfn á ný. 97:97. Jakob Sigurðarson kom KR yfir 14 sekúndum fyrir leikslok en Sigurður Þorsteinsson jafnaði fyrir KR á síðustu sekúndunni. Ótrúleg stemning í DHL-höllinni og magnaður leikur.

3 mín: Jón Nordal fer af velli með 5 villur en hann hefur skorað 22 stig fyrir Keflavík. Jakob skorar úr tveimur vítum. Staðan er 95:93 fyrir Keflavík.
3 mín: Rosa skorar þriggja stiga körfu fyrir Keflavík. Staðan er 93:91 fyrir Keflavík og 2:25 mín eftir. Rosa haltrar eftir skotið og virðist eitthvað meiddur. Leikhlé.

1. mín: Fannar Ólafsson skorar fyrir KR, 90:88.  

4. leikhluta er lokið, 88:88: 

10. mín. Það var allt í tómu tjóni í sóknarleik Keflavíkur en Rosa náði sóknarfrákasti eftir lélegt skot frá honum sjálfum. Rosa skoraði frá endalínu og jafnaði metin. Staðan er 88:88 og aðeins 1 sek. eftir af leiknum. KR á boltann. Helgi Magnússon átti síðasta skotið en boltinn fór einn hring á körfuhringnum áður en hann fór af honum. Framlenging tekur við.

9. mín: Keflavík á engin svör við svæðisvörn KR. Staðan er 88:86 og 41 sek. eftir af leiknum.

8. mín: Jón Arnór skorar eftir hraðaupphlaup og það er brotið á honum. Staðan er 86:86 og 2:21 mín eftir af leiknum.  Keflavík hefur misst boltann klaufalega í þremur sóknum í röð. Sigurður þjálfari Keflavíkur tekur leikhlé.

7. mín: KR-ingar leika svæðisvörn þessa stundina. Staðan er 86:82 fyrir Keflavík. Aðeins 6 leikmenn úr liði Keflavíkur hafa komist á blað. 

6. mín: Rosa treður með tilþrifum eftir góða sendingu frá Sigurði Þorsteinssyni. Staðan er 84:79 fyrir Keflavík. Rétt áður hafði ungur KR-ingur setti „borgarskotið“ ofaní frá miðju og er sá á leiðinni til útlanda á næstunin í boði Iceland Express. Vel gert.

5. mín: Sverrir Sverrisson fékk á sig 5. villuna fyrir klaufalegt brot. Hann hefur lokið keppni í kvöld. Staðan er 82:78 fyrir Keflavík.

3 mín: Benedikt Guðmundsson fékk dæmda á sig tæknivillu. KR-ingar brunuðu upp í næstu sókn og Jason tróð með tilþrifum. Staðan er 80:78 fyrir Keflavík. 

1. mín: Jón Nordal Hafsteinsson skoraði fyrstu stigin fyrir Keflavík. Staðan er 78:76 fyrir Keflavík.

3. leikhluta er lokið 72:74:

10. mín: KR-ingar náðu sér vel á strik í þriðja leikhluta.  Jakob Örn er með 21 stig fyrir KR en Rosa er stigahæstur í lið Keflavíkur með 26 stig.

8. mín: Gunnar Einarsson hefur lokið keppni hjá Keflavík. Hann fékk 5. villuna rétt í þessu. Staðan er 68:66 fyrir Keflavík. Baráttan inni á vellinum er rosaleg og ekki langt í að það sjóði upp úr. Fannar Ólafsson, KR, var að fá sína þriðju villu fyrir sóknarbrot.

6. mín: Jason Dourriseou kemur KR yfir í fyrsta sinn í langan tíma. 66:65. Keflavík svaraði með þremur stigum í röð. Staðan er 68:66 fyrir Keflavík . 

5. mín: Gríðarlegur hraði er í leiknum. Jón Arnór var að fá sína fjórðu villu en hann er að gæta Rosa. Staðan er 65:64 fyrir Keflavík.

3. mín: Jón Arnór fékk sína þriðju villu. Rosa brýtur ísinn fyrir Keflavík og skorar úr þremur vítaskotum. 61:54 fyrir Keflavík.

3. mín: KR-ingar byrja af miklum krafti. Staðan er 58:54 fyrir Keflavík. Sigurður Ingimundarson tekur leikhlé.Keflavík hefur ekki skorað stig.

1. mín: Jakob Örn Sigurðarson skoraði þriggja stiga körfu fyrir KR. Staðan er 58:49 fyrir Keflavík.

2. leikhluta er lokið, 58:46:

10. mín. Keflvíkingar eru með 12 stiga forskot eftir fyrri hálfleik. Vörn KR hefur ekki náð sér á strik en það var aðalsmerki liðsins í fyrstu tveimur leikjunum. Staðan er 58:46.  Jón Arnór Stefánsson er stigahæstur í lið KR með 12 stig og Jakob Sigurðarson er með 9 stig. Rosa skoraði 18 stig fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og athygli vekur að Jón Nordal Hafsteinsson skoraði 12 stig.

Skotnýting KR-inga er léleg en liðið er aðeins með 33% skotnýtingu úr tveggja stiga skotunum, 6 af alls 18 hafa ratað rétta leið. Keflavík er með 72% nýtingu úr tveggja stiga skotunum, 18 af alls 25 skotum hafa farið rétta leið.

9. mín: Gunnar Einarsson og Sverrir Þór Sverrisson eru báðir með 3 villur í liði Keflavíkur. Staðan er 54:43 fyrir Keflavík.

8: mín. Fannar Ólafsson braut á Jóni N. Hafsteinssyni. Hann skoraði og dæmt var óíþróttamannsleg villa á Fannar. Staðan er 49:35 fyrir Keflavík. Varnarleikur Keflavíkur er góður en KR-ingar eru ráðvilltir í sókn sem vörn.

7. mín: KR-ingar reyna allt hvað þeir geta en Keflvíkingar skora og skora. Staðan er 46:31 fyrir Keflavík. Rosa tók fjögur vítaskot í röð og setti þau öll ofaní en dæmd var tæknivilla á KR fyrir mótmæli.

5. mín: Staðan er 38:31 fyrir Keflavík. Íslandsmeistararnir eru gríðarlega einbeittir og það er allt annar bragur á leik liðsins en í fyrstu tveimur leikjunum.
4. mín: Það er heldur betur farið að hitna í kolunum. KR-ingar eru ósáttir við dómgæsluna og þá sérstaklega Fannar Ólafsson. Hann er í mikilli baráttu gegn Sigurði Þorsteinssyni undir körfunni. Staðan er 33:27 fyrir Keflavík.

2. mín: KR-ingar byrja af miklum krafti og staðan er 26:21 fyrir Keflavík. 

Það er boðið upp á magadans á milli fjórðunga í DHL-höllinni.  „Miðjann“ vill meiri magadans.

1. leikhluta er lokið, 16:24:

10. mín: Fyrsta leikhluta er lokið. Staðan er 24:16 fyrir Keflavík. Bæði lið hafa leikið maður á mann vörn frá upphafi. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði síðustu stig fyrsta leikhluta fyrior Keflavík.

8. mín: Staðan er 20:11 fyrir Keflavík. KR-ingar eru ósáttir við dómgæsluna. Jón Arnór Stefánsson braust upp að körfunni og það virtist vera brotið á honum en ekkert dæmt. Sigurður Þorsteinsson lá eftir meiddur á gólfinu en hann hristi það af sér skömmu síðar.

6. mín: Jakob Sigurðarson leikmaður KR skoraði 5 stig í röð og breytti stöðunni í 12:9. Keflavík lagaði stöðuna í næstu sókn. Staðan er 14:9. „Ég fer í fríið“ syngja strákarnir í Miðjunni og gera ráð fyrir að Keflvíkingar ljúki keppni með tapi í kvöld. 

5. mín: KR tekur leikhlé. Keflavík er 12:4 yfir. Jesse Pellot Rosa skoraði þrjú stig og kom Keflavík í 9:4 og rétt á eftir stal Hörður Axel Vilhjálmsson boltanum og skoraði auðveldlega. Miðjan, stuðningsmannahópur KR, er líflegri en leikmenn liðsins.

4. mín: Gunnar Einarsson kemur inná í liði Keflavíkur fyrir Sverri Sverrisson. Staðan er 4:2 fyrir Keflavík.
2. mín: Jason Dourriseou skoraði fyrstu stig KR eftir að Jón Nordal Hafsteinsson hafði komið Keflavík í 2:0.

„2.000 kallarnir“ Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson eru dómarar leiksins en þeir dæmdu báðir sinn 1.000 leik í 2. leik Keflavíkur og KR.

Það er gríðarleg stemning í DHL-höllinni. Áhorfendabekkirnir eru þéttsetnir og mikill hávaði í stuðningsmönnum beggja liða.

Gunnar Einarsson er í leikmannahóp Keflavíkur. Hann meiddist á nára í öðrum leiknum en ætlar að láta reyna á meiðslin í kvöld. 

Hörður Axel Vilhjálmsson, Keflavík
Hörður Axel Vilhjálmsson, Keflavík Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina