Snæfell burstaði Keflavík 91:69

Hlynur Bæringsson er óumdeildur leiðtogi Hólmara.
Hlynur Bæringsson er óumdeildur leiðtogi Hólmara. mbl.is/Ómar

Annar úrslitaleikur Snæfells og Keflavíkur um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla hófst í Stykkishólmi klukkan 19:15. Snæfell vann stórsigur 91:69 í leik þar sem Keflavík átti varla möguleika nema í fyrsta leikhluta. Staðan er 1:1 en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Atkvæðamestir:

Snæfell: Sigurður Þorvaldsson 29, Martins Berkis 16, Hlynur Bæringsson 16 fráköst.

Keflavík:  Urele Igbavboa 15, Gunnar Einarsson 14, Sigurður Þorsteinsson 14.

40. mín: LEIK LOKIÐ. Ójöfnum leik lauk með stórsigri Snæfells 91:69 og staðan í rimmunni er 1:1.  Stuðningsmenn Snæfells tryllast af fögnuði. 

35. mín: Staðan er 83:56 fyrir Snæfell og Hólmarar eru að koma sigrinum í örugga höfn. Gæðin í leiknum hafa minnkað talsvert í síðari hálfleik.

30. mín: Staðan er 74:48 fyrir Snæfell að loknum þremur leikhlutum. Úrslit þessa leiks virðast ráðin og undirritaður leyfir sér að fullyrða að svo sé. Það er ekkert sem bendir til þess að Keflavík geti unnið þennan leik og komist í 2:0 enda tókst þeim ekki að brjóta 50 stiga múrinn í þriðja leikhluta. 

27. mín: Staðan er 67:48 fyrir Snæfell og Keflvíkingar virðast vera að missa móðinn. Þeir eru farnir að gera klaufaleg mistök í sókninni og virðast ekki hafa trú á verkefninu. 

25. mín: Staðan er 62:46 fyrir Snæfell og Keflavík tekur leikhlé. Keflvíkingar hafa byrjað þriðja leikhluta á ágætlega og eiga möguleika á að minnka muninn fyrir síðasta leikhlutann. Takist þeim að minnka muninn niður í 10 stig þá gæti síðasti leikhlutinn orðið spennandi. 

20. mín: Staðan er 54:35 fyrir Snæfell að loknum fyrri hálfleik. Miklir yfirburðir Hólmara í fyrri hálfleik og Keflvíkingar þurfa að girða sig í brók ef þeir ætla að eiga möguleika. Leikmenn Snæfells hafa hitt mjög vel og þá er erfitt að eiga við þá eins og dæmin sanna. Þeir gerðu til dæmis 110 stig gegn firnasterku liði Grindvíkinga í 8 liða úrslitum.  Sigurður Þorvalds er stigahæstur hjá Snæfelli með 21 stig en Gunnar Einars hjá Keflavík með 9 stig.

18. mín: Staðan er 52:27 fyrir Snæfell. Ótrúlegar tölur og Keflvíkingar þurfa heldur betur að hrökkva í gírinn í síðari hálfleik til þess að eiga möguleika. Sigurður Þorvaldsson er kominn með 21 stig fyrir Snæfell. Hefur hitt úr öllum fjórum þriggja stiga skotum sínum, öllum fimm vítaskotum sínum og tveimur af fjórum innan teigs.

16. mín: Staðan er 43:23 fyrir Snæfell. Hlynur Bæringsson var að skila þremur stigum fyrir Hólmara og tók í leiðinni sitt 10 frákast í leiknum. Hlynur og Gunnar Einars lentu í smá ryskingum en því virtist ekki fylgja nein sérstök illindi. 

13. mín: Staðan er 37:23 fyrir Snæfell. Heimamenn eru búnir að koma sér upp álitlegri forystu. Berkis og Sigurður Þorvalds halda áfram að setja niður þriggja stiga skot. Keflvíkingar eru í vandræðum með að verjast sóknarleik Snæfells þegar hittnin er jafn góð og raun ber vitni.

10. mín: Staðan er 24:18 fyrir Snæfell að loknum fyrsta leikhluta. Leikmenn Snæfells eru heitir og hafa sett niður fjögur þriggja stiga skot. Keflvíkingar eru ekki langt undan og þeim gengur ágætlega að setja pressu á Hólmara þegar þeir fara með boltann upp völlinn. 

8. mín: Staðan er 22:15 fyrir Snæfell. Jeb Ivey er kominn inn á fyrir Pálma. Martins Berkis og Sigurður Þorvaldsson hafa skorað tvær þriggja stiga körfur hvor fyrir Snæfell. Stigaskorið hefur dreifst mjög hjá Keflvíkingum en Burns, Gunnar Einars og Hörður Axel Vilhjálmsson eru allir komnir ágætlega inn í leikinn.   

6. mín: Staðan er 15:9 fyrir Snæfell. Hlynur Bæringsson var að troða með hrikalegum tilþrifum og Guðjón Skúlason þjálfari Keflvíkinga tekur leikhlé. Hólmarar eru skrefinu á undan enn sem komið er og hafa sett niður þrjár þriggja stiga körfur.

3. mín: Staðan er 5:5. Sigurður Þorvaldsson skoraði fyrstu körfuna fyrir Snæfell með skoti fyrir utan þriggja stiga línuna.

2. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn. Jeb Ivey byrjar á bekknum eins og búast mátti við. Snæfell er þó ekki með neinn aukvissa í stöðu leikstjórnanda, því það hlutverk leysir Pálmi Freyr Sigurgeirsson sem varð Íslandsmeistari með KR í fyrra.

0. mín: Ekki ganga allir leikmenn liðanna heilir til þessarar orrustu. Jón Ólafur Jónsson fékk snert af lungnabólgu og hefur ekki tekist að hrista hana af sér enn sem komið er en hann hefur verið veikur í 10 daga. Samherji hans Hlynur Bæringsson er tæpur vegna meiðsla sem og Draelon Burns, Bandaríkjamaðurinn hjá Keflavík. 

0. mín: Bandaríski leikstjórnandinn Sean Burton situr á varamannabekknum hjá Snæfelli í borgaralegum klæðum en hann er meiddur eins og komið hefur fram. Hann mun þó fylgja liðinu sem eftir er af úrslitakeppninni. 

0. mín: Gríðarlega stemning að myndast í íþróttahúsinu í Stykkishólmi þar sem stuðningsmenn liðanna keppast við að kveðast á. Húsið var orðið tæplega fullt um klukkutíma fyrir leik. 

mbl.is

Bloggað um fréttina