KR er eina liðið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik sem á eftir að ráða þjálfara fyrir næstu leiktíð. Morgunblaðið sló á þráðinn til Böðvars Guðjónssonar formanns körfuknattleiksdeildar KR í gær sem var bjartsýnn á að KR-ingar myndu ganga frá ráðningu nýs þjálfara á næstunni. „Þetta er búið að vera í farvegi í allt sumar. Victor Finora sem var með yngri flokkana hjá okkur í fyrra ætlaði að koma og taka við meistaraflokknum. Hann dró okkur allt of lengi á svari og svo kom í ljós að hann gat ekki tekið þetta að sér,“ sagði Böðvar við Morgunblaðið. Eiginkona hans, Jenny Pheiffer-Finora fékk þjálfarastöðu erlendis og það spilaði sjálfsagt inn í ákvörðunina hjá Finora.
„Það gekk því miður ekki upp eins og gefur að skilja og við þurftum þá að byrja aftur á byrjunarreit,“ sagði Böðvar ennfremur og vildi ekki láta neitt hafa eftir sér um þær viðræður sem væru í gangi en ítrekaði að KR-ingar reiknuðu með að ráða þjálfara á næstunni.
Páll Kolbeinsson þjálfaði KR á síðustu leiktíð en hafði aldrei hugsað sér að þjálfa liðið lengur en í eitt ár. Fjögur önnur félög skipta um þjálfara. Helgi Jónas Guðfinnsson tekur við Grindavík af Friðriki Ragnarssyni. Borce Ilievski tekur við Tindastóli af Karli Jónssyni, Tómas Holton tekur við Fjölni af Bárði Eyþórssyni og Bob Jerome Aldridge tekur við KFÍ af Borce Ilievski. Önnur félög verða áfram með sömu þjálfara. Þeir eru eftirtaldir:
Snæfell: Ingi Þór Steinþórsson
Keflavík: Guðjón Skúlason
Stjarnan: Teitur Örlygsson
Njarðvík: Sigurður Ingimundarson
ÍR: Gunnar Sverrisson
Hamar: Ágúst Björgvinsson
Haukar: Pétur Ingvarsson
kris@mbl.is