Helgi Jónas: Fara inní skel og verða aumingjar

ÍR-ingarnir Kelly Beidlar og Nemanja Sovic voru góðir í öruggum …
ÍR-ingarnir Kelly Beidlar og Nemanja Sovic voru góðir í öruggum sigri á Grindavík í kvöld og taka hér boltann af Ómari Erni Sævarssyni. mbl.is//Kristinn

„Menn bara nenntu ekki að spila,“ sagði Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindavíkur eftir svakalega útreið gegn ÍR í Breiðholtinu í kvöld þar sem munurinn varð mestur 35 stig í 92:69 tapi.

Þjálfarinn skóf ekki utan af hlutunum.  „Það er bara ekkert annað en aumingjaskapur, við höfum spilað frábærlega það sem af er vetri en þegar mikilvægasti hluti tímabilsins er að ganga í garð fara menn bara inní skel og verða aumingjar. Ég verð að reyna ná þeim út úr skelinni og get öskrað á þá og allt það en það er líka undir leikmönnum komið hvort þeir koma fram.  Við skorum 69 stig sem er fáránlega lélegt.  Ég verð líka að skoða hjá sjálfum mér hvað er að“. 

Grindavík tapaði frekar óvænt fyrir Haukum í síðustu umferð.  „Ég hélt að tapið fyrir Haukum í síðasta leik hefði verið nóg fyrir liðið en því finnst greinileg gott að láta taka sig í bakaríinu.  Ég ætla rétt að vona að þetta tapi vekji menn rækilega því það er bikarleikur á sunnudaginn og þá er ekki hægt að vinna tap þar til baka,“ bætti Helgi Jónas við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert