Haukar sendu KR-inga úr leik

Jence Ann Rhoads úr Haukum sækir að körfu KR en ...
Jence Ann Rhoads úr Haukum sækir að körfu KR en Bryndís Guðmundsdóttir reynir að stöðva hana. mbl.is/Kristinn

Haukar gerðu sér lítið fyrir og slógu KR-inga út úr Poweradebikar kvenna í körfuknattleik í 16 liða úrslitum í gærkvöldi með magnaðri endurkomu og sigri í framlengdum leik.

 Margrét Kara Sturludóttir virtist vera að innsigla sigur KR þegar hún skoraði úr tveimur vítaköstum og náði sex stiga forystu fyrir KR 20 sekúndum fyrir leikslok, en þá tók Jence Ann Rhoads til sinna mála og skoraði sex stig í röð. Hún skoraði úr tveggja stiga skoti og náði svo boltanum strax af KR auk þess sem brotið var á henni. Hún nýtti bæði vítaköst sín og jafnaði svo metin þegar enn var tími til stefnu. Erica Prosser klúðraði skoti sínu um leið og flautan gall og því varð að framlengja.

Þar náðu heimakonur í Haukum strax frumkvæðinu og létu forystuna ekki af hendi en þær gerðu fjögur síðustu stigin og unnu, 78:73. Haukar hafa einnig unnið KR tvisvar í deildinni í vetur.

Haukar höfðu verið með yfirhöndina mestallan leikinn, og voru til að mynda fimmtán stigum yfir snemma í seinni hálfleik, en KR komst yfir þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Það eru hins vegar Haukar sem fá tækifæri til að vinna bikarinn sem KR missti af í úrslitaleiknum við Keflavík í fyrra.

Fyrrnefnd Ann Rhoads var í lykilhlutverki hjá Haukum og skoraði 23 stig auk þess að taka 8 fráköst og gefa 7 stoðsendingar, og Hope Elam var litlu síðri með 22 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst. Hjá KR var Margrét Kara með 20 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar, og Bryndís Guðmundsdóttir gerði 18 stig. sindris@mbl.is