Darrell Flake til Þorlákshafnar

Darrell Flake í leik með Grindavík fyrir tveimur árum.
Darrell Flake í leik með Grindavík fyrir tveimur árum. mbl.is/hag

Körfuknattleiksmaðurinn Darrell Flake, sem er íslenskur ríkisborgari, er genginn til liðs við Þórsara frá Þorlákshöfn og spilar með þeim í úrvalsdeildinni næsta vetur.

Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs staðfestir þetta við karfan.is og segir að eftir að nýjar reglur voru samþykktar á þingi KKÍ á dögunum hefði ekki verið hægt að fá Blagoj Janev aftur til liðsins.

„Ég hef þjálfað Flake áður og hef þekkt hann lengi og fínt að fá hann í þetta verk. Flake þekkir íslenska teiginn í flestum íþróttahúsum landsins og vart til sá teigur hér sem hann er ekki búinn að ,,húkka" að minnsta kosti tvisvar eða þrisvar sinnum," sagði Benedikt við karfan.is

Flake er 32 ára gamall, bandarískur að uppruna, og lék með Skallagrími í 1. deildinni síðasta vetur og tók þátt í að koma Borgnesingum í úrvalsdeildina. Hann hefur einnig leikið með Grindavík, Tindastóli, Fjölni undir stjórn Benedikts, og með KR-ingum, en hann lék fyrst með KR hér á landi veturinn 2002-2003.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert