Fyrstu landsleikir í þrjú ár

Helena Sverrisdóttir í leik með landsliðinu.
Helena Sverrisdóttir í leik með landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik er komið til Noregs þar sem Norðurlandamótið hefst í dag. Íslenska liðið er að skríða úr þriggja ára dvala og þrátt fyrir að einungis einn nýliði sé í hópnum þá eru engu að síður aðeins þrír leikmenn í hópnum sem léku síðasta landsleik.

„Við erum allar spenntar fyrir því að spila landsleiki aftur enda langt síðan landsliðið kom saman síðast. Ég held að það séu bara þrír leikmenn sem spiluðu síðasta landsleik og það eru því svolitlar breytingar. Það er þó bara einn nýliði og því eitthvað um að leikmenn séu að koma aftur inn í hópinn. Fyrir utan það er auðvitað nýr þjálfari og nýr aðstoðarþjálfari,“ sagði Helena Sverrisdóttir, fremsta körfuknattleikskona Íslands, þegar Morgunblaðið náði tali af henni skömmu eftir lendingu á Gardermoen-flugvellinum í Ósló.

Þjálfarinn sem um ræðir er Sverrir Þór Sverrisson og aðstoðarþjálfari er Anna María Sveinsdóttir. Helena tekur nú þátt í sínu þriðja Norðurlandamóti og sagði holninguna á íslenska liðinu vera svipaða og áður.

„Við erum aldrei hávaxnar og höfum alltaf þurft að berjast við það. Þar sem við erum lágvaxnar þá verðum við að vera duglegar í fráköstunum. Við þurfum að einbeita okkur að vörninni og treysta á að liðsvörnin verði sterk. Þá kemur sóknin með og kannski getum við þá fengið einhver stig úr hraðaupphlaupum. Við höfum oft verið í hörkuleikjum á móti Danmörku og Noregi,“ sagði Helena.

mbl.is