Hreggviður: Get ekki beðið eftir að mæta KR

Hreggviður í leik með KR gegn Tindastóli.
Hreggviður í leik með KR gegn Tindastóli. mbl.is/Golli

Hreggviður Magnússon körfuknattleiksmaður er genginn í raðir ÍR eftir tveggja ára dvöl hjá KR eins og greint var frá fyrr í dag. Hann segir spennandi tíma framundan í Breiðholtinu.

„Það er alltaf kokteill af ástæðum á bakvið svona,“ sagði Hreggviður við mbl.is aðspurður um félagaskiptin. „Á sínum tíma, fyrir tveimur árum, fann ég að mig langaði til að breyta til og fór yfir í KR. Þar tók ég vel á líkamsræktarmálum og kom mér í betra form, og spilaði svo á fyrra árinu lykilhlutverk í því liði sem vann nánast allt sem það gat unnið. Ég átti svo eitt ár eftir af mínum samningi sem ég kláraði og þurfti svo að melta það vel hvort ég vildi vera áfram eða fara heim. Mig langaði heim og þar eru mjög spennandi hlutir í gangi,“ sagði Hreggviður sem er spenntur fyrir því að takast á við KR næsta vetur.

„Það verður hrikalega gaman. Ég get bara ekki beðið.“

Ítarlegt viðtal við Hreggvið verður í Morgunblaðinu í fyrramálið

mbl.is