Darrell Flake áfram með Tindastóli

Darrell Flake í leik með Tindastóli.
Darrell Flake í leik með Tindastóli. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksmaðurinn Darrell Flake hefur samið við Tindastól á Sauðárkróki um að leika áfram með liðinu á næsta keppnistímabili. Hann kom til liðs við Stólana fyrir þetta tímabil og er á góðri leið með að tryggja sér úrvalsdeildarsæti með þeim en liðið er með vænlega stöðu á toppi 1. deildar.

Darrell Flake er 33 ára gamall, íslenskur ríkisborgari, og hefur spilað meira og minna hér á landi frá 2002 þegar hann kom fyrst til KR. Hann hefur síðan leikið með Fjölni, Skallagrími, Breiðabliki, Grindavík og Þór í Þorlákshöfn. Sem leikmaður Skallagríms var hann tvívegis kjörinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

Í fréttatilkynningu frá Tindastóli er lýst yfir mikilli ánægju með að Darrell skuli leika áfram með liðinu og hjálpa til við uppbygginguna í félaginu.

mbl.is