Snæfell Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Snæfell var rétt í þessu að tryggja sér Íslandsmeistaratitlinn í körfuknattleik kvenna með 69:62 sigri á Haukum í þriðja leik liðanna í Stykkishólmi. Snæfell vann því rimmuna 3:0 og fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

Fyrri hálfleikur var hnífjafnt og allt stefndi í hörkubaráttu. Haukar voru yfir í hálfleik, 25:23. Í þriðja leikhluta má segja að Snæfell hafi gert út um leikinn en þá skoraði liðið 19 stig í röð og náði afgerandi forystu sem Haukar réðu ekki við, þó þeim hefði tekist að minnka muninn í sex stig um tíma í fjórða leikhluta.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is

40. LEIK LOKIÐ, 69:62 - Snæfell Íslandsmeistari. Stigahæst var Hildur Sigurðardóttir með 20 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar. Hildur Björg Kjartansdóttir var með 17 stig. Hjá Haukum var Lele Hardy með 24 stig og 16 fráköst.

36. 59:44 Við duttum úr sambandi hérna. Haukar minnkuðu muninn í 48:42 og gerðu þá meðal annars sína fyrstu þriggja stiga körfu í leiknum. En Snæfell hefur farið á kostum síðustu mínútur og nokkuð ljóst að bikar fer á loft hér í Hólminum í kvöld. Það þarf eitthvað mikið að gerast síðustu fjórar mínúturnar til að svo verði ekki.

30. 46:34 Haukar náðu aðeins að rétta sinn hlut undir lok þriðja elikhluta þegar liið gerði fimm stig í röð, en miðkaflinn í þriðja leikhluta var ekki nægilega góður hjá Haukum því þá gerði Snæfell 19 stig í röð og slíkt gengur ekki í svona mikilvægum leik.

28. 44:29 Snæfell að taka þetta því liðið er búið að gera 19 stig í röð og þar af fimm þriggja stiga körfur. Haukar taka aftur leikhlé.

25. 33:29 Snæfell virðist vera að ná undirtökunum og hafa gert átta stig í röð. Haukar taka leikhlé.

24. 28:29 Haukar komust í 25:29 en Snæfell svaraði með þriggja stiga körfu. Gunnhildur Haukakona er komin með fjórar villur sem er slæmt fyrir Hauka.

Hálfleikur: Haukar hafa tekið 16 þriggja stiga skot en ekki hitt úr einu einasta. Snæfell með 10/1 í þriggja stiga skotum og hittni beggja liða mætti alveg vera betri, en á móti kemur að hraðinn er mikill og því leikurinn hin besta skemmtun þó að hittnin sé ekki góð. Páll Óskar tók annað lag í hálfleiknum og áhorfendur stóðu upp, klöppuðu og sungu með. Stemningin í húsinu er mögnuð, fjölmargir Haukamenn styðja vel við bakið á sínu liði og heimamenn gefa að sjálfsögðu ekkert eftir í þeim máljum.

20. 23:25 Þessi leikur verður rosalegur það er alveg ljóst. Bæði lið berjast eins og ljón og ekkert er gefið eftir. Gunnhildur komin með þrjár villur hjá Haukum. Hildur Björk er með 10 stig fyrir Snæfell og Hildur með 9 fráköst. Hjá Haukum er Hardy með 12 stig og 11 fráköst, en Haukakonur hafa verið rosalega grimmar í fráköstum og hafa tekið 34 slík en Snæfell 25.

18. 19:21 Haukar komnir yfir á ný. Virðist sem leikurinn muni vera svona til loka. Gríðarleg barátta í báðum liðum.

15. 19:17 Haukar taka leikhlé enda hefur sóknin ekki gengið eins vel síðustu mínúturnar og hún gerði í fyrsta leikhluta. Snæfell reyndi mikið þriggja stiga skot framan af leik en sækja nú meira inn í teiginn og það virðist ganga betur.

14. 17:15 Snæfell komið yfir í fyrsta sinn.

12. 14:14 Snæfell búið að jafna metin og það gerði Alda Leif með sínum fyrstu stigum.

10. 10:12 Fyrsti leikhluti á enda. Hildur gríðarlega öflug hjá Snæfell með 6 fráköst og þrjár stoðsendingar í fyrsta leikhluta auk tveggja stiga.

8. 5:11 Haukar ná fínum kafla og eru 5:11 yfir og Hardy gríðarlega sterk en Gróa er komin með tvær villur enda erfitt að hafa hemil á Hardy sem hefur gert 7 af 11 stigum Hauka.

5. 5:7 Mikil spenna og hraði í leiknum og staðan 5:7 fyrir Hauka.

2. 0:5 Haukar byrja betur. Hardy með þrjú stig og Hafnfirðingar komast í 0:5.

1. Leikurinn er hafinn og Snæfell fer í fyrstu sóknina.

0. Páll Óskar Hjálmtýsson mættur á svæðið og syngur af sinni alkunnu snilld við mikinn fögnuð áhorfenda sem standa og klappa í takt. Flott framlag!!

0. Nú eru bara nokkrar mínútur þar til leikurinn hefst og mikil spenna í loftinu. Spurning hvort bikarinn fari á loft hér í Hólminum í kvöld eða hvort spennustigið hjá heimaliðinu verður of mikið. Á sama hátt er það spurning hvort Haukar ná að beisla spennuna, en liðið er óneitanlega komið með bakið upp að vegg og verður að vinna.

0. Á meðan leikmenn hita upp er straumur áhorfenda í Íþróttamiðstöðina í Hólminum. Bekkurinn er orðinn þétt setinn uppi í stúku og verið er að koma sætum fyrir niðri á gólfi. Margir fá sér hamborgara og standa menn frá körfuknattleiksdeildinni í ströngu við að grilla ofan í áhorfendur.

0. Dómarar leiksins eru þeir Davíð K. Hreiðarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson.

0. Leikmannahóparnir liggja fyrir og má sjá þá hér að neðan.

0.
Hannes Jónsson, formaður KKÍ og mótastjórinn Stefán Borgþórsson, eru mættir í Hólminn með Íslandsbikarinn meðferðis. Honum hefur verið komið fyrir á borði við hlið ritaraborðsins.

0. Haukastúlkur renndu í hlaðið klukkan sex og leikmenn beggja liða eru að gera sig klára fyrir upphitun.

0.
Chynna Unique Brown, erlendi leikmaður Snæfells, verður í búning og spurning hversu mikið hún getur leikið með, en hún lék ekki með í fyrstu tveimur leikjum liðanna.

0.
Mbl.is er mætt í Hólminn til að fylgjast með leiknum. Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari kvennaliðs Snæfells, er í rólegheitum að stjórna æfingu hjá unglingaflokki, en þar eru Snæfell og Borgarnes með sameiginlegt lið.

SNÆFELL: Edda Bára Árnadóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Silja Katrín Davíðsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Alda Leif Jónsdóttir, Rebekka Rán Karlsdóttir, Hugrún Eva Valdimarsdóttir, Chynna Unique Brown.

HAUKAR: Guðrún Ósk Ámundadóttir, Lovísa Björt Henningsdóttir, Auður Íris Ólafsdóttir, Margrét Rósa Hálfdanardóttir, Sylvia Rún Hálfanardóttir, Jóhanna Bj. Sveinsdóttir, Gunnhildur Gunnarasdóttir, Lele Hardy, Þóra Kristín Jónsdóttir, Dagbjört Samúelsdóttir, Inga Rún Svansdóttir, Íris Sverrisdóttir.

Snæfell er 2:0 yfir í einvíginu eftir 59:50 sigur í Hólminum í fyrsta leik og síðan 72:75 sigur á Ásvöllum í leik númer tvö. Sigri Snæfell í kvöld verður þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill kvennaliðsins í körfuknattleik.

mbl.is