KR Íslandsmeistari

KR-ingar lyfta Íslandsbikarnum í leikslok.
KR-ingar lyfta Íslandsbikarnum í leikslok. mbl.is/Eva Björk

Fjórða leik KR og Grindavíkur í úrslitum Domino's-deild karla í körfuknattleik lauk rétt í þessu og skemmst frá því að segja að KR landaði Íslandsmeistaratitlinum í hörkuspennandi leik, 79:87. KR vann seríuna 3:1 og vel að titlinum komið.

Leikurinn spilaðist vel fyrir Grindavík, sem vildi halda sér inní þessum leik og taka hann svo á endasprettinum en það voru hinsvegar KR sem áttu nóg á tankinum á lokamínútum hans og því fór sem fór. Grindavíkingar áttu að gera betur á síðustu fimm mínútum leiksins en menn náðu ekki að sýna þá yfirvegun sem einkenndi leik gestanna að þessu sinni.
Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu og munurinn aldrei meiri en 5-6 stig. Það má segja að byrjunarliðsmenn beggja liða hafi átt þennan leik með húð og hári því næstum öll stig leiksins komu frá þessum tíu leikmönnum.

Pavel Ermolinskij, Demond Watt, Helgi Magnússon og Darri Hilmarsson voru frábærir í leiknum en Martin Hermannson, besti leikmaður úrslitakeppninnar, var bestur.

Hjá Grindavík voru Jóhann Ólafsson, Ómar Sævarsson, Sigurður Þorsteinsson og Ólafur Ólafsson ágætir.

KR voru bestir í allan vetur og því kemur þessi titill ekki á óvart og alveg ljóst að leikmenn og þjálfari liðsins eiga heiður skilið fyrir frábæran vetur i alla staði. Endalokin voru sannfærandi hjá liðinu og fáa veika hlekki að finna. Til hamingju KR! Til hamingju Grindavík með gott tímabil og góða baráttu í seríunni.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

40. Brotið á Pavel, setur bæði...  Johann klórar í bakkann... en svo er dæmd önnur óíþróttamannsleg villa og leikurinn og titillinn er KR-inga núna... 79:85 -
Ruslakarfa frá Jóhann breytir engu... lokatölur 79:87

40. Óíþróttamannsleg villa dæmd á Óla Ól og leikurinn er óformlega búinn... KR fær 2 víti og boltann með aðeins 15 sekúndur eftir... í stöðunni 77:83

40. Pavel klikkar, 77:81 enn... 23 sekúndur eftir og heimamenn með innkast...

40. Jóhann skorar... 77;81

39. Clinch klikkar úr snöggum þrist en KR klikka líka og Ómar skorar ... En Darri setur þrist sem virðist vera útslagið í leiknum... 75:81

38. Óli klikkar úr þrist... ekki gott útlitið fyrir heimamenn núna... brotið á Watt undir körfunni og greinilegt að heimamenn eru að missa af einhverri lest því æsingurinn er einfaldlega of mikill í leik þeirra... STAÐAN þegar 2:10 eru eftir, 73:78

38. Watt með auðvelda körfu eftir sendingu frá Martin... 73:77

36. MArtin jafnar leikinn, 73:73 ... Helgi skólar Jóhann á blokkinni og skorar... þetta er afar gáfuleg aðferð til að skora og KR ætti að nýta sér þetta meira... 73:75

36. Jóhann bætir upp fyrir mistökin, setur vítin sín... 73:71

35. Jóhann með glapræðisskot úr horninu fyrir heimamenn og það varð þeim ansi dýrt því Darri setur þrist uppúr hraðaupphlaupinu sem varð til aðeins vegna þessa lélega skots... rándýr matseðill Jóhanns! Leikurinn jafn núna og KR-ingar líta betur út í augnablikinu... 71;71

35. Martin skorar frábæra körfu og Pavel fær vítaskot eftir að brotið var á honum í hraðaupphlaupi... 71:68

34. Helgi fær 2 víti... 66:65... Clinch skólar Darra aðeins til og skorar. Það er komin áberandi meiri harka í varnarleik beggja liða. Daníel setur risastóran þrist fyrir heimamenn, 71:66

33. Siggi brýtur á Pavel, sem fer á línuna. Fjórða villan á Sigga og hann sest á bekkinn, þetta er hræðileg tíðindi fyrir heimamenn. 66:64

32. Jóhann setur risastóran þrist... og Pavel fær dæmda á sig sóknarvillu!!! Allt að snúast heimamönnum í vil núna... 66:62

31. Siggi skorar úr góðu og opnu skoti; eitthvað sem heimamenn þurfa að leita betur að þessar síðustu mínútur... Pavel setur þrist í kjölfarið en Siggi svarar um hæl... 63:62

30. FRÁBÆR skemmtun! Hnífjafnt fyrir síðasta hluta... 59:59

30. Óli Ól keyrði upp að körfunni en hreyfing veik og duglaus, sem og svo margar á undan. Þetta þurfa þeir að komast í gegnum heimamenn ef þeir vilja oddaleik. 59:59

29. Skotval heimamanna er ábótavant; það dugar ekki að dúlla sér fyrir utan með boltann, Grindvíkingar verða að sækja á körfuna og vera miklu grimmari. Pavel skorar og staðan 59:57

28. Helgi skólar Óla Ól til á blokkinni og skorar... 59:55

27. Clinch skorar en ákafinn er orðinn of mikill hjá heimamönnum og þeir brjóta klaufalega á Pavel... þeir verða að passa sig að hafa smá forsjá með þessu kappi sínu, Pavel klikkar úr öðru og staðan 59:53

27. Aftur dregur til tíðinda hjá nafna mínum Óskarssyni... óíþróttamannslega villa dæmd, núna á Helga Magnússon og Ómar setur annað ofaní... 57:52

26. Brynjar í gegn og skorar; stemmarinn hvarf eins og mús undan ketti... Clinch skorar og blokkar síðan Brynjar... 54:52 - brotið á Ómari í kjölfarið, 56:52

26. Stemmarinn er heimamanna núna en þeir kannski muna ekki að Darri getur vel hitt úr þriggja!!! Darri setur hann 52:50

25. Siggi skorar en brýtur svo klaufalega á Helga hinum megin og sendir hann á línuna. Þetta var fyrsta villan á Sigga þannig að þetta sleppur alveg. Jóhann skorar þrist eftir frábæra baráttu Ómars í sóknarfráköstunum. 52:47...

24. Óli Ól skorar og Grindavík nær að stoppa sérlega undarleg sókn gestanna. Hnífjafnt, 47:47

24. Brotið á Watt, sem hefur haft hægt um sig í stigaskorun en tekið samt 8 fráköst, 45:47

22. Jóhann missir boltann klaufalega en Pavel klikkar úr sniðskoti. Siggi skorar og heimamenn aftur komnir yfir en það stendur i stutta stund því Martin skorar 45:46

21. Pavel setur þrist og KR komnir yfir, 43:44

Hálfleikur: Það vantar ekkert í þennan leik; taugarnar eru þandar, baráttan er mæld á Richter og frábær tilþrif eru að sjást inná milli. KR byrjaði leikinn ekki vel en hafa komið sterkari í annan fjórðung, það sama má segja um Grindavík en þeim hefur tekist að riðla leik KR örlítið en þurfa bara að passa sig að ætla sér ekki að fá kökuna alla og borða hana líka á sama tíma. Þetta verk þeirra þarf stóíska ró og yfirvegun; KR-ingar eru ekki lið sem brotnar undan smá þrýstingi stemningu, það þarf að hamra það járn á meðan heitt og gera það jafnt og þétt. Þessi leikur lofar góðu fyrir Grindavík, þetta spilast alveg eins og þeir vilja, núna þurfa þeir bara að halda hausnum í lagi og passa að KR-ingar nái ekki upp áhlaupum sínum, sem oftar en ekki klára leikina í þriðja hluta... líf og fjör, poppaðu og skiptu um bleyju á barninu þínu áður en þú sest yfir seinni hálfleik.

20. Jæja!!! Nú detta af mér allar steindauðar lýs... Pavel fékk á sig óíþróttamannslega villu, vítin ofaní og Grindavík með boltann... Pavel bætir upp fyrir þetta með því að blokka skot Clinch í lok hálfleiksins... rosalegur leikur í uppsiglingu, staðan 43:41

20. Leikurinn að opnast núna... Clinch að skora eftir að Pavel ökklabraut næstum Óla Ól... Clinch setur þrist og Helgi svarar um hæl... SVAKALEGUR leikur í gangi hérna... 41:41 og Grindavík á eina sekúndu eftir af skotklukkunni en 7 eftir á leikklukku...

19. Siggi skorar og brotið á honum! Frábært hraðaupphlaup heimamanna, 36:34

18. Óli Ól skorar af blokkinni. Ómar manar Pavel að taka þrist, sem hann gerir og klikkar. Clinch setur hann hinsvegar hinum megin og allt að galopnast aftur. 33:34

17. Darri setur tvö! Sverrir þjálfari Grindavíkur sér þann kost vænstan að taka leikhlé. 28:34 og ljóst að KR-ingar eru að sýna yfirvegun og þolinmæði í sínum leik. Heimamönnum er ekki að takast að slá þá neitt útaf laginu.

16. Boltinn rúllar mun betur og skipulagðar hjá KR en Grindavík. Þetta er áhyggjuefni fyrir Grindavík því öll þeirra skot eru með mann og hönd í skotinu og því verður þetta alltaf meira ströggl... 28:32

15. Martin skorar og Ómar svarar strax. Helgi setur GALopinn þrist! Þetta veitir ekki á gott fyrir heimamenn. Óli Ól skorar góða körfu en það breytir ekki einni staðreynd sem ekki er hægt að líta framhjá; skotval KR er miklu mun betra en heimamanna! 28:30

14. Brynjar skorar auðvelda körfu! Alltof auðvelt! 24:22. Sóknaraðgerðir heimamanna líta út fyrir að útheimta meiri orku og erfiði. Varnarleikur KR er aðeins öflugri. Pavel setur þrist úr horninu, 24:25

13. Staðan núna 22:20 og ljóst að vörn heimamanna hefur skánað. Harkan er töluverð og menn ekki eins ákafir og þeir voru í upphafi. Róm var ekki byggð... Óli Ól skorar og leikhlé KR - 24:20

11. VÁÁÁ!!! Siggi með svakalega troðslu!!! Svona sést bara í ákveðnum héruðum í Súdan! 20:20

10. KR-ingar eru að fá töluvert opnari skot því hjálparvörnin er of djúp og of sein að koma tilbaka í opnu skytturnar. Leikmenn hafa hinsvegar ekki hitt vel í upphafi. Staðan eftir fyrsta hluta 18:18

9. Jóhann jafnar leikinn, 16:16. Það er ekki laust við að smá taugatitringur einkenni leik beggja liða, enda mikið undir. Þetta sést best á hvernig menn eru að klikka úr upplögðum færum undir körfunni eða nálægt henni og þeim undarlegu sendingum sem hafa sést hingað til. Martin skorar og Ómar svarar, 18:18

7. KR missa boltann. Ómar skorar. 15:16. Núna eru mönnum mislagðar hendur í sókninni og ekkert skorað...

6. Óli Ól skorar þrist sem myndi í 99% tilvika teljast ólöglegur í flestum siðmenntuðum samfélögum, 13:16

5. Brotið á Jóhanni, 10:10.
Grindavík missir boltann klaufalega og Martin skorar og stelur svo boltanum aftur og skorar aftur!!! Hvað er að gerast hérna eiginlega? 10:14

5. Aftur taka heimamenn sóknarfrákastið!!! Siggi skorar, og á hinum endanum tekur Watt sóknarfrákast og brotið á honum, 9:10

4. Clinch setur þrist og Martin svarar um hæl. 7:8

3. Jóhann skorar, 2:6. Leikmenn beggja liða klaufaleg þessar fyrstu mínútur en baráttan alveg til fyrirmyndar, Óli Ól skorar eftir sóknarfrákast. 4:6

2. Martin setur þrist, KR-ingar sjóðheitir hérna í upphafi. 0:6

1. Byrjunarliðin eru eins og hér var spáð fyrir neðan. Watt blokkar Ómar uppí 4.sætaröð!!! Helgi opnar leikinn fyrir KR með þrist, 0:3

19:14 - Núna hefur heimsklassakynning á leikmönnum tekið enda og ljóst að stemmarinn hérna í Röstinni er með ólíkindum yndislegur. Húsið er kjaftfullt og þeir gulu í stúkunni klárlega með töluvert meiri trú á sínum mönnum en við hinir hlutlausu.

19:12 - Hvernig sem á hlutina er litið er líkurnar ekki með heimamönnum í kvöld; KR-liðið er gríðarlega öflugt og þó svo að Grindavík hafi unnið síðasta leikinn hérna í Röstinni er það langt í frá einhver vísir að þessum leik. Núna eru þeir með bakið upp við vegg og titillinn sjálfur undir og vissulega er hægt að líta á þessa staðreynd sem augljósa "mótiveringu" fyrir hvaða lið sem er í þess konar stöðu. Ég er hinsvegar ekki sannfærður þar sem Grindavík hefur ekki náð að sýna nægilega boðlega leiki í þessari seríu. Menn eins og Clinch, Jóhann og Sigurður hafa ekki sýnt nægilega mikið til þess að réttlæta miklar væntingar til Grindavíkurliðsins. En eins og maður sagði, allt er hægt... það er kannski bara ég sem á erfitt með að trúa...

19:05 - Flestir þekkja liðin en ljóst að þau eru skipuð eftirfarandi leikmönnum: Grindavík byrjar líklega með Jóhann Ólafsson, Ómar Sævarsson, Earnest Clinch, Sigurð Þorsteinsson og Ólaf Ólafsson, en þetta getur vissulega breyst. Kjartan Steinþórsson, Daníel Guðmundsson, Hilmir Kristjánsson, Jón Axel Guðmundsson, Jens Óskarsson, Hinrik Guðbjartsson og Ingvi Guðmundsson munu verma bekkinn í upphafi leiks. Hjá KR er líklegt byrjunarlið Pavel Ermolinski, Demond Watt, Martin Hermannsson, Helgi Magnússon og Darri Hilmarsson. Á bekknum verða Brynjar Björnsson, Ingvaldur Hafsteinsson, Jón Orri Kristjánsson, Þorgeir Blöndal, Illugi Steingrímsson, Ólafur Ægisson og Högni Fjalarsson.

18:45 - Jæja, núna er stutt í leik og húsið orðið fullt. Í einfaldasta formi sínu er þessi leikur lífþráður heimamanna og flestir sammála um að Grindavíkurliðið muni mæta grimmt og ákveðið til leiks. Þetta er gömul tugga vissulega og alls ekki víst að liðsmenn nái að finna það jafnvægi sem þarf til þess að grimmdin og áræðnin skili sér í jákvæðu framlagi; þetta getur snúist við í höndunum á liðum sem þurfa að koma tví-eða þríelfd til leiks í svona stöðum. Grindvíkingar mega ekki fara fram úr sjálfum sér því KR spilar oftar en ekki yfirvegaðan bolta með þolinmæðina að vopni. Slíkum liðum er sjaldan skotið skelk í bringu með offorsi og látum; þetta þurfa heimamenn að hafa bak við eyrun því ég tel afar hæpið að þeir nái að riðla leik KR-inga í 40 mínútur. Grindavík þarf að finna leiðir til að stjórna leiknum, hleypa honum upp í hraða og nýta sér tækifærin sín í rólegheitunum þegar við á og hleypa leiknum upp eftir uppbyggingu á áhlaupi, ekki reyna að rembast eins og rjúpa við staur að koma áhlaupunum í gang: Láta þau gerast þegar tækifærin eru til staðar.

18.15 - Grindvíkingar þurfa sigur til að tryggja sér oddaleik í KR-heimilinu á laugardaginn, en að öðrum kosti veita KR-ingar Íslandsbikarnum viðtöku í leikslok í kvöld. Hann hefur verið geymdur í Grindavík undanfarin tvö ár því Grindvíkingar urðu Íslandsmeistarar 2012 og 2013 og svo eru þeir bikarmeistarar 2014.

18.15 - Liðin hafa unnið heimaleiki sína til þessa í einvíginu. KR vann fyrst í Vesturbænum, 93:84, þá Grindvíkingar á sínum heimavelli, 79:76, og KR burstaði svo meistarana í þriðja leiknum, 87:58.

Martin Hermannsson og Jón Axel Guðmundsson í sannkölluðu návígi í ...
Martin Hermannsson og Jón Axel Guðmundsson í sannkölluðu návígi í Röstinni í kvöld. mbl.is/Eva Björk
Earnest Lewis Clinch grettinn á svip en Demond Watt sækir ...
Earnest Lewis Clinch grettinn á svip en Demond Watt sækir að honum. mbl.is/Eva Björk
Jóhann Árni Ólafsson Grindvíkingur fer framhjá Darra Hilmarssyni í leiknum ...
Jóhann Árni Ólafsson Grindvíkingur fer framhjá Darra Hilmarssyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eva Björk
Jóhann Árni Ólafsson með boltann í leiknum í kvöld.
Jóhann Árni Ólafsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Eva Björk
Earnest Lewis Clinch Grindvíkingur með boltann í leiknum í kvöld.
Earnest Lewis Clinch Grindvíkingur með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Eva Björk
Ólafur Ólafsson í baráttu undir körfunni í leiknum í kvöld.
Ólafur Ólafsson í baráttu undir körfunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eva Björk
mbl.is