Lið Hattar komið í úrvalsdeildina

Leikmenn Hattar fagna sætinu í efstu deild að ári í ...
Leikmenn Hattar fagna sætinu í efstu deild að ári í kvöld. Ljósmynd/Austurfrétt

Lið Hattar frá Egilsstöðum tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með því að leggja lið FSu að velli í hörkuleik í 1. deildinni. Liðið hefur átta stiga forskot á toppi deildarinnar en lið FSu var það eina sem hefði tölfræðilega getað náð þeim fyrir kvöldið.

Gestirnir í FSu byrjuðu leikinn mun betur og og liðsmenn FSu hreinlega völtuðu yfir þá í fyrsta leikhluta. Staðan var 9:9 þegar leikhlutinn var hálfnaður en staðan að honum loknum var 19:27.

Heimamenn rönkuðu hins vegar við sér í 2. leikhluta og minnkuðu forskotið í fjögur stig að honum loknum, staðan 42:46.

Í þriðja leikhluta hrundi hins vegar leikur FSu-manna og heimamenn í Hetti fór á kostum. Þeir skoruðu sjö fyrstu stigin í leikhlutanum og breyttu stöðinni í 49:46. Þeir fóru svo langleiðina upp í Dominos-deildina þegar þeir skoruðu 12 síðustu stigin í leiklutanum en staðan að honum loknum var 70:58.

FSu komst aldrei nálægt Hetti í 4. leikhluta og sætið í úrvalsdeildinni að ári tryggt hjá Hattarmönnum.  Tobin Carberry fór á kostum í liði Hattar og skoraði náði einfaldri tvennu, hann skoraði 35 stig, tók 15 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Viðar Örn Hafsteinsson átti einnig góðan leik fyrir Hattarmenn og skoraði 14 stig, tók sjö fráköst og gaf eina stoðsendingu. Hjá FSu var Collin Anthony Pryor langstigahæstur með einfalda tvennu en hann gerði 36 stig, tók 14 fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Liðin í 2.-5. sæti í 1. deild  munu  keppa um síðasta lausa sætið í efstu deild að ári en það verða lið Hamars 24, FSu 24, ÍA 22 og Vals 20. Næsta lið fyrir neðan Val er Breiðablik sem hefur 12 stig.

 Hattarmenn voru að vonum kátir í leikslok:

mbl.is