Sigurviljinn mun ráða úrslitum

Sara Rún Hinriksdóttir mætir Haukum í úrslitakeppninni.
Sara Rún Hinriksdóttir mætir Haukum í úrslitakeppninni. mbl.is/Eggert

Sara Rún Hinriksdóttir, leikmaður Keflavíkur, var valin í úrvalslið síðari hluta Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik, en valið var kunngjört í gær. Keflavíkurliðið endaði í öðru sæti deildarinnar, sex stigum á eftir Snæfelli, og mætir Haukum í úrslitakeppninni.

„Ég er kannski ekki sátt við tímabilið hingað til, maður vill auðvitað alltaf vinna en annað sætið er samt ekki slæmt. Við vorum að elta Snæfell svolítið í vetur en höfðum samt tækifæri á að ná þeim sem við misstum af,“ sagði Sara við mbl.is. En hvernig leggst úrslitakeppnin og lið Hauka í hana?

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Leikirnir við Hauka hafa verið jafnir í vetur og þetta verður vonandi skemmtilegt. Ég held að úrslitakeppnin eigi eftir að vera mjög jöfn en það muni ráða úrslitum hvort liðið spilar fastar og sýnir meiri vilja til að komast áfram,“ sagði Sara.

Lele Hardy hefur farið á kostum með Haukum í vetur og var bæði stigahæst og frákastadrottning deildarinnar. Sara segir að það þýði þó ekki að einblína bara á hennar framlag ætli Keflavík sér að stoppa Hauka.

„Hún er mjög mikilvæg hjá þeim og vissulega leikmaður sem við þurfum að stoppa og við ætlum okkur að gera það, en það er ekki þannig að við getum bara einbeitt okkur að henni,“ sagði Sara við mbl.is og sagði markmiðið að sjálfsögðu að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn til Keflavíkur eftir eins árs dvöl í Stykkishólmi, en félagið getur unnið þann stóra í tólfta sinn nú í vor.

Sjá: Íslandsmeistaratitillinn er í augsýn

Sara Rún Hinriksdóttir sækir að körfunni.
Sara Rún Hinriksdóttir sækir að körfunni. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert