KR í úrslit eftir tvíframlengdan trylli

KR vann Njarðvík í ótrúlegum oddaleik í undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Vesturbæ í kvöld. KR-ingar fá lítinn tíma til að melta úrslitin því þeir mæta Tindastóli í fyrsta leik úrslitaeinvígisins á heimavelli á mánudagskvöld.

Tvívegis þurfti að framlengja til að fá fram úrslit í leiknum. Njarðvík sýndi mikla seiglu eftir skelfilegan fyrsta leikhluta, staðan að honum loknum var 24:5, og kom sér smám saman vel inn í leikinn. Það var ekki síst fyrir framgöngu Stefan Bonneau sem sallaði niður stigum, sérstaklega í þriðja leikhluta, og hafði þegar upp var staðið skorað 52 stig. Njarðvík var nálægt því að tryggja sér sigur en Pavel Ermolinski var á öðru máli og jafnaði metin í 83:83 með þriggja stiga skoti 10 sekúndum fyrir leikslok.

Njarðvík náði ekki að nýta lokasókn sína og heldur ekki undir lok fyrri framlengingarinnar en í bæði skiptin geiguðu þristar hjá Bonneau. Í seinni framlengingunni var komið að þætti Björns Kristjánssonar sem skoraði afar mikilvægan þrist og sýndi stáltaugar á vítalínunni, þegar Pavel Ermolinski og Helgi Már Magnússon voru báðir farnir af velli með fimm villur.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í kvöld og fjallað verður um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

-------------------------------------------

KR - Njarðvík, 102:94

50. Leik lokið! Njarðvíkingar reyna að senda KR á vítalínuna til að eiga von en Björn er nógu öruggur þar og sóknir Njarðvíkur klikka. Þetta er búið! KR leikur til úrslita gegn Tindastóli! Lokatölur í þessum tvíframlengda oddaleik, 102:94. Til hamingju KR og takk Njarðvík fyrir magnaða skemmtun!

50. Björn nýtti tvö vítaskot og kom KR í 101:93. Sá hefur verið örlagavaldur á þessum lokamínútum.

50. Craion með muninn í sex stig og þristur Loga geigar. Aðeins hálf mínúta eftir. Staðan er 99:93 fyrir KR sem er á leið í úrslitaeinvígið!

49. Björn með gríðarlega mikilvægt sóknarfrákast og svo er brotið á Magna sem nýtir bæði vítin. Staðan 97:93 þegar 1 mínúta og 10 sekúndur eru eftir.

48. Logi kemur Njarðvík yfir, 93:92, en Björn Kristjánsson svarar með frábærum þristi! Staðan 95:93 fyrir KR.

47. Craion með körfu fyrir KR en Bonneau svarar strax. Staðan 92:91 fyrir KR.

46. Darri með æðisgenginn þrist eftir að Snorri klikkaði á báðum vítaskotum sínum. Staðan 90:87 fyrir KR.

46. Bonneau byrjaði á að missa boltann og KR-ingar klikkuðu svo á þremur skotum í sömu sókninni áður en dæmt var á Finn fyrir að stjaka við Snorra. Taugar og þreyta að segja til sín.

45. Fyrri framlengingu lokið. Logi klikkaði á skoti og KR komst í sókn með +4 sek við skotklukkuna. Brynjar fór með boltann í teiginn og aftur fyrir körfuna, og sendi hann svo aftan í spjaldið. Njarðvík með boltann þegar 10 sekúndur voru eftir og Bonneau reyndi aftur úrslitaþrist en það gekk ekki. Önnur framlenging. Staðan 87:87.

45. Skot Finns geigaði og 40 sekúndur eftir. Njarðvík með boltann. Staðan 87:87.

44. Craion klikkaði á tveimur vítum, náði sóknarfrákastinu en klikkaði svo aftur. Njarðvík missti boltann og KR á sókn þegar mínúta er eftir. Staðan 87:87.

44. Bonneau jafnaði með þristi, 87:87!

43. Frábær samleikur Brynjars og Craion og Brynjar skorar. Pavel brýtur svo á Magic og hefur lokið leik með fimm villur. Magic nýtti seinna vítið. Staðan 87:84 fyrir KR og 2 og 20 eftir.

42. Pavel setti niður tvö vítaskot og kom KR í 85:83.

42. Mirko með loftbolta en skot Pavels í kjölfarið geigaði sömuleiðis. Enn 83:83.

Fjórða leikhluta lokið. Bonneau reyndi erfiðan þrist í lokin sem geigaði, öfugt við svo mörg skota hans í kvöld. Staðan 83:83 og við förum í fimm mínútna framlengingu. Ég get ekki mikið meira. Þvílíkur leikur.

40. Misheppnuð sókn hjá Njarðvík sem fær boltann aftur eftir að hann fer í innkast. KR-ingar vildu brot á Magic en ekkert dæmt. Finnur þjálfari er gjörsamlega brjálaður og mér sýndist hann hafa sitt hvað til síns máls.

40. Pavel Ermonlinski með þrist og jafnar metin!! Njarðvík tekur leikhlé með tæpar 10 sekúndur til stefnu. Staðan 83:83.

40. Bonneau á vítalínuna með 18 sekúndur eftir og hann nýtti bæði. 83:80.

40. Brynjar minnkar muninn í 81:80 með auðveldri körfu. Minna en skotklukka eftir og KR-ingar þurfa að brjóta.

39. Ólafur Helgi af velli með fimmtu villu. Pavel á vítalínunni og hann skoraði úr hvorugu vítinu. Staðan áfram 81:78. Mínúta eftir.

39. Vá!! Craion með tröllatroðslu og minnkar muninn í þrjú stig, 81:78. KR vinnur boltann.

38. Vonleysislegar sóknir hjá KR en Logi skoraði eftir að hafa hangið í hálftíma í loftinu og Ólafur Helgi bætti við tveimur stigum, svo staðan er 81:74 fyrir Njarðvík.

37. Þrjár mínútur og 44 sekúndur eftir þegar Njarðvík biður um leikhlé. KR-ingar komnir með bónus. Staðan 77:74 fyrir Njarðvík.

36. KR missti boltann þegar Björn steig út fyrir hliðarlínu. Njarðvík fékk svo fjögur tækifæri í næstu sókn eftir að Ólafur Helg og Mirko unnu sóknarfráköst, en náði ekki að nýta þau. Þess í stað setti Pavel niður þrist! Staðan 77:74 fyrir Njarðvík.

35. Helgi braut á Bonneau og hefur lokið leik. Slæmt fyrir KR að missa hann á ögurstundu. Bonneau skoraði og Logi Gunnarsson refsaði KR strax í kjölfarið með körfu. KR-ingar taka leikhlé. Eru meistararnir að falla úr leik eftir þessa draumabyrjun í leiknum? Enn nóg eftir. Staðan 77:71 fyrir Njarðvík.

35. KR-ingar lokuðu á Bonneau en þá losnaði um Ólaf Helga sem setti niður fallegan þrist. Helgi setti svo niður tvö af vítalínunni. Staðan 73:71 fyrir Njarðvík.

34. Craion að jafna metin með því að nýta annað vítaskota sinna, eftir þrist frá Pavel, en Bonneau setti bara niður þrist í kjölfarið og er kominn í 40 stig! Ef KR tekst ekki að stöðva hann endar þetta bara á einn veg. Stðaan 70:67 fyrir Njarðvík.

33. Vá! Bonneau með þrist, hann er bara kominn með 37 stig, og Logi bætir við öðrum í kjölfarið og Njarðvíkingar komnir með forskot, 67:63.

32. Mirko slapp með skrekkinn. Sýndist hann fara viljandi í Pavel þar sem þeir lágu á gólfinu í baráttu um boltann. Pavel fékk högg á höfuðið en ekkert alvarlegt. Skiptir minna máli þar sem KR vann boltann í kjölfarið þegar dæmdur var ruðningur. Staðan 63:61 fyrir KR.

Leikhluta 3 lokið. Munurinn er þrjú stig fyrir lokafjórðunginn, 61:58. Bonneau skoraði 21 stig í leikhlutanum! Bræðurnir Helgi og Finnur Atli eru með fjórar villur hjá KR, og Hjörtur Hrafn hjá Njarðvík. Jæja, þá eru það lokaátökin.

30. Björn Kristjánsson með fallegan þrist úr horninu fyrir KR þegar 2 og hálf sekúnda eru eftir af þriðja leikhluta. Staðan 61:58 fyrir KR.

30. Bonneau jafnar metin! Vá, þessi leikur er nákvæmlega það sem maður vonaðist eftir. Ágúst Orrason vann sóknarfrákast af miklu harðfylgi og það er eitthvað sem hefur heldur betur vantað hjá gestunum. Staðan 58:58.

29. Logi smeygði sér í gegn og skoraði laglega körfu, og Bonneau fylgdi því eftir í næstu sókn. Munurinn er kominn í tvö stig! Staðan 58:56.

28. Bonneau hitti úr vítinu og Craion nýtti fyrra vítaskot sitt í næstu sókn, svo munurinn er sjö stig, 57:50.

28. Munurinn kominn undir 10 stig eftir að Bonneau skoraði og nýtti víti að auki. Bíðið við! Hann skoraði aftur og fékk vítaskot að auki í næstu sókn! Finnur Atli brotlegur í bæði skiptin. Staðan 56:49 fyrir KR sem tekur leikhlé fyrir vítaskotið hjá Bonneau. Þetta er GALOPIÐ!

27. Craion að hirða tvö sóknarfráköst í sömu sókninni, þar af annað eftir víti. Þetta er ekkert flókið ef að annað liðið getur náð sér í fleiri, fleiri tækifæri í sömu sókn. 

27. Bonneau setti niður þriggja stiga skot í spjaldið og ofan í, virtist hissa en alveg tilbúinn að sætta sig við þetta. Craion setti niður víti fyrir KR en Snorri nýtti svo bæði sín fyrir KR í kjölfarið. Staðan 52:41, ellefu stiga munur.

26. Finnur með fallegan tvist og svo þrist í kjölfarið, og kom KR í 51:35.

24. Bonneau með körfu fyrir Njarðvík en Brynjar svarar fyrir KR-inga. Staðan 46:33 fyrir KR. Craion, Helgi og Darri allir komnir með þrjár villur en enginn í Njarðvíkurliðinu.

22. Pavel strax búinn að hirða tvö fráköst í vörninni. Hann er kominn með 14 fráköst, næstum því jafnmörg og allt Njarðvíkurliðið! Staðan 43:31 fyrir KR.

21. Njarðvíkingar byrja á að missa boltann klaufalega og Craion skorar fyrir KR. Þetta er allt í anda fyrri hálfleiks. Staðan 43:29 fyrir KR.

21. Seinni hálfleikur hafinn.

Hálfleikur. Staðan er 41:29 fyrir KR eftir fyrri hálfleik. KR-ingar náðu 16:0 forskoti og í því ljósi er staðan kannski ekki svo slæm fyrir Njarðvík, þó hún sé slæm. Gestirnir unnu upp sjö stig í öðrum leikhluta. Bonneau skoraði 10 fyrstu stig sín í leikhlutanum en Craion er stigahæstur hjá KR með 16 stig og hefur tekið sjö fráköst. Pavel er kominn með 12 fráköst og KR í heild tvöfalt fleiri en gestirnir, 29 gegn 15. Hvað um það, þetta einvígi er ekkert búið þrátt fyrir þessa ótrúlegu byrjun á oddaleiknum.

20. Pavel með yfirvegaðasta þrist sem ég hef séð, hálfri mínútu fyrir lok fyrri hálfleiks. Bonneau setti svo niður tvö vítaskot eftir brot Helga sem fékk sína þriðju villu. Staðan 41:29 fyrir KR.

20. Magic að minnka muninn í 11 stig, 37:26, eftir að Logi hafði unnið boltann. Tæp mínúta eftir af fyrri hálfleik.

17. Darri setti annan þrist og Craion fékk svo gefins körfu frá Brynjari. Mirko að svara fyrir Njarðvík. Staðan 35:21 fyrir KR.

15. Bonneau kveikti hreinlega í kofanum með troðslu í loftinu eftir frábæra sendingu Loga. Darri kom KR-ingum á tærnar með þristi í kjölfarið. Staðan 30:17 fyrir KR.

14. Magic með góðan þrist fyrir Njarðvík og Logi varði skot Brynjars í kjölfarið. „Þetta eru 11 stig, það er ekki neitt!“ kallaði Logi svo vel heyrðist um alla höll. Staðan 26:15 fyrir KR.

12. KR-ingar taka leikhlé eftir körfu frá Loga og fyrstu stig Bonneau. Staðan 26:12 fyrir KR.

11. Logi með silkimjúkan þrist og minnkaði muninn í 26:8 eftir að Craion hafði skorað fyrstu körfu leikhlutans. Craion kominn með 13 stig nú þegar.

Leikhluta 1 lokið. Staðan er 24:5 fyrir KR. Fimm! Njarðvíkingar skoruðu aðeins fimm stig í fyrsta leikhlutanum og nú reynir heldur betur á menn að kreista fram sjálfstraust í þeirra herbúðum, því þetta er ekkert annað en niðurlæging. KR-ingar spilað frábæra vörn og verið góðir í sókninni.

10. Tæknivilla á Bonneau. Brynjar setti niður vítið en Magni klikkaði svo á báðum vítaskotunum sem KR fékk í sókninni í kjölfarið. Staðan 24:5 fyrir KR.

9. Pavel og Craion hafa verið að leika frábærlega saman og Craion kom KR í 20:2, áður en hann varði svo skot Bonneau. Hjörtur Hrafn setti góðan þrist fyrir Njarðvík, fyrstu stigin sem ekki komu af vítalínunni, en Brynjar svaraði að bragði. Staðan 23:5 fyrir KR.

7. Tæpar sjö mínútur liðnar þegar Hjörtur Hrafn skoraði fyrsta stig Njarðvíkur úr vítaskoti en hann klikkaði svo á seinna skotinu. Staðan 16:1 fyrir KR.

6. Helgi með magnaða körfu þegar skotklukkan gall og kom KR í 14:0! Ætla Njarðvíkingar ekkert að skora? Brynjar bætti svo við úr skyndisókn, 16:0!

4. Tæpar fjórar mínútur liðnar og staðan 8:0 fyrir KR. Njarðvík tekur leikhlé og skal engan undra. Taugatitringur í mönnum. Helgi og Craion með sína körfuna hvor og Helgi búinn að vinna boltann í tvígang í vörninni.

3. Brynjar með víti og Helgi vann boltann svo af Loga og Darri setti skot niður úr skyndisókn. Staðan 4:0 fyrir KR. Njarðvíkingar ekki komnir á blað.

3. Craion með eina stigið til þessa úr víti en hefur farið illa með skotin sín. Njarðvíkingar reynt erfið færi. Ólafur Helgi var að verja skot Darra með tilþrifum, við mikinn fögnuð. Staðan 1:0 fyrir KR.

1. Leikur hafinn! Pavel, Brynjar, Craion, Darri og Helgi byrja hjá KR. Logi, Bonneau, Magic, Mirko og Ólafur Helgi hjá Njarðvík.

0. Þá er verið að kynna liðin til leiks, eða reyna það. Það heyrist nú ekki mikið fyrir áhorfendum sem eru komnir vel í gírinn. Þetta verður SVAKALEGT! Ég væri alveg til í betri loftkælingu hérna.

0. Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkinga, sendi hressandi mynd á Twitter í aðdraganda leiksins, sem sýndi ljón ráðast á sebrahest. Það verður að koma í ljós hversu táknræn sú mynd er.

0. Pavel Ermolinski er enn að komast í gang eftir að hafa tognað illa í læri í bikarúrslitaleiknum en hann spilaði tæpar 17 mínútur í síðasta leik og hitar upp með félögum sínum af fullum krafti.

0. KR-ingar báðu áhorfendur um að sitja heima en stuðningsmenn að mæta á leikinn. Nú er að sjá hvernig þeir svarthvítu á áhorfendapöllunum svara öflugum stuðningsher Njarðvíkinga sem var að taka vel á móti sínum mönnum þegar þeir komu úr klefanum til upphitunar. Það er orðið þröngt um fólk nú þegar, hálftíma fyrir leik.

0. Allir fjórir leikir einvígisins hafa unnist á heimavelli. Raunar hafa Njarðvíkingar unnið alla fimm sigra sína í úrslitakeppninni á heimavelli, en tapað öllum útileikjum sínum. Nú er bara spurningin hvað gerist í kvöld.

0. Góða kvöldið kæru lesendur og velkomnir í beina textalýsingu mbl.is úr DHL-höllinni í Vesturbænum. Nú er stuð, nú er gaman, og nú er titrandi taugaspenna í lofti. Hvaða lið fer í úrslitaeinvígið gegn Tindastóli um Íslandsmeistaratitilinn 2015?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert