„Þetta er frábær tilfinning“

Íslandsmeistarar Snæfells í körfuknattleik kvenna 2015.
Íslandsmeistarar Snæfells í körfuknattleik kvenna 2015. Ljósmynd/Þorsteinn Eyþórsson

Kristen McCarthy hjá Snæfelli var valin leikmaður úrslitaleikjanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik og vel að því komin eftir frábært tímabil sem endaði vel fyrir hana og hennar liðsfélaga í hreint ótrúlegum þriðja leik gegn Keflavík í kvöld, en honum lauk með eins stigs sigri Snæfells, 81:80.

 „Þetta er bara ótrúlegur sigur og í kvöld stigu allir liðsmenn upp en mér fannst ég ekki spila neitt sérstaklega en þetta er ekki um mig heldur allt liðið. María [Björnsdóttir] kom til dæmis hérna með svakalega stórar körfur, víti og barðist vel fyrir fráköstum og þannig var það með liðið í kvöld og það er það sem þarf til vinna meistaratitilinn, spila sem lið. Þetta er frábær tilfinning. Ég hef ekki unnið neitt af þessari stærðargráðu þrátt fyrir titla þegar ég var 15 og 16 ára,“ sagði McCarthy við mbl.is eftir leikinn.

„Þetta skiptir mig gríðarlega miklu máli og sérstaklega að vinna þetta með þeim [Snæfelli] þar sem mér hefur liðið svo rosalega vel með þeim og eru virkilega gott fólk sem er stærra en nokkur titill sem maður getur unnið. Ég hef eignast frábæra vini hérna og það eitt toppar alla meistaratitla sem maður getur unnið.

Ég veit að ég kem ekki aftur að ári þar sem ég er með önnur áform en Snæfell er eina liðið sem ég mun spila fyrir á Íslandi ef ég kem aftur. Svo vel hefur mér liðið í Stykkishólmi og er svo mikið ánægð fyrir hönd fólksins í bænum með okkar árangur og að fá að vera hluti af því . Ég man eftir fólki betur en efnislegum hlutum og fólki eins og hefur tekið utan um mig hérna mun ég aldrei gleyma og er því mjög mjög þakklát. Nú fer ég bara að hlakka til að fara að hitta fjölskylduna eftir þetta æðislega ævintýri.“

Kristen McCarthy.
Kristen McCarthy. mbl.is/Ómar
mbl.is