Axel á leið til Svendborg - „Er þetta ekki gamalt trix?“

Axel Kárason.
Axel Kárason. Ómar Óskarsson

Körfuknattleiksmaðurinn Axel Kárason sem leikið hefur með liði Værløse norður af Kaupmannahöfn mun færa sig um set fyrir næsta tímabil og leika fyrir lið Svendborg Rabbits en þar er landsliðsþjálfari Íslands, Craig Petersen við völd en honum til aðstoðar í Svendborg er Arnar Guðjónsson.

„Ég þekkti Craig og Arnar fyrirfram, en maður er aðeins upp sér að þeir hafi tekið svona vel í þetta,“ sagði Axel þegar mbl.is heyrði í honum en Axel var þá nýbúinn að svæfa íslenska hestinn Gimstein fyrir aðgerð, á dýraspítala í Kaupmannahöfn, en Axel er að læra til dýralæknis.

Axel og félagar í Værløse héldu sér uppi í efstu deild danska körfuboltans en félagið ákvað engu að síður að spila í næstefstu deild á næsta tímabili vegna fjárhagsmála.

Svendborg lenti í 3. sæti í deildinni og varð í fjórða sæti í dönsku úrslitakeppninni og því klárlega um skref upp á við að ræða hjá Axel.

Axel líst afar vel á nýja félagið og segir Svendborg góðan stað til að búa á og félagið vera afar rótgróið og sterkt.

Mun spila með besta leikmanni deildarinnar

„Mér líst afar vel á það. Þetta er bæði gott lið með sterka sögu síðustu 10 ár og ég þekki þjálfarana. Félagið er mjög gott að öllu leyti sem og bærinn,“ sagði Axel sem semur við félagið til eins árs eins og tíðkast iðulega í körfubolta.

Íslenska landsliðið mun spila á úrslitakeppni Evrópumótsins í Þýskalandi í sumar og spurður að því hvort þetta hefði verið taktísk félagaskipti var Axel fljótur að svara.

„Er þetta ekki gamalt trix?,“ svaraði Axel léttur en talaði svo af meiri alvöru. „Ég þekki hann út af því að hann er landsliðsþjálfari en ég var farinn að þekkja Arnar nokkuð vel fyrir,“ sagði Axel en Svendborg var í raun það lið sem heillaði hann lang mest af þeim liðum sem stóð til boða.

Axel er einnig afar spenntur fyrir því að leika með einum besta leikmanni deildarinnar, Argentínumanninum Antonio Porta hjá Svendborg.

„Mér finnst hann vera besti leikmaðurinn í deildinni hérna. Mig langaði virkilega til að spila með honum hann er svakalega góður,“ sagði Axel.

Axel Kárason.
Axel Kárason. Mynd/Svendborg Rabbits
Axel Kárason (t.h.) með landsliðinu síðasta sumar.
Axel Kárason (t.h.) með landsliðinu síðasta sumar. Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert