Stærsti bitinn á leið til Hauka

Helena Sverrisdóttir í landsleik gegn Dönum.
Helena Sverrisdóttir í landsleik gegn Dönum. mbl.is/Ómar

Kvennalið Hauka í körfuknattleik er við það að tryggja sér einn feitasta bitann á leikmannamarkaðnum þar sem viðræður við landsliðskonuna Helenu Sverrisdóttur, bestu körfuknattleikskonu Íslendinga um þessar mundir, eru á lokastigi.

Helena mun ekki aðeins leika með liðinu heldur mun hún væntanlega taka að sér hlutverk spilandi aðstoðarþjálfara í þriggja manna teymi.

Þetta er þó ekki frágengið en Kjartan Ásmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, staðfesti við Morgunblaðið að viðræður við Helenu væru á lokastigi. Fari svo að Helena taki að sér spilandi aðstoðarþjálfarahlutverk yrði það frumraun hennar í þjálfun á meistaraflokksliði en hún hefur þjálfað 15 og 16 ára kvennalandslið Íslands.

Ingvar Guðjónsson væntalega næsti aðalþjálfari liðsins

Að sögn Kjartans eru viðræður við Ingvar Guðjónsson, aðstoðarþjálfara liðsins á liðinni leiktíð, einnig komnar á lokastig um að taka við sem aðalþjálfari liðsins en Ingvar lék einnig lengi vel með karlaliði Hauka.

Hann mun þá taka við liðinu af Ívari Ásgrímssyni sem þjálfaði bæði karla- og kvennalið Hauka á síðustu leiktíð. Ívar mun að öllum líkindum halda þjálfun karlaliðsins áfram, að sögn Kjartans.

Ingvar og Helena þekkjast vel en Ingvar hefur verið aðalþjálfari 15 og 16 ára landsliðanna þar sem Helena hefur verið honum til aðstoðar. Enn er þó eftir að tilkynna þriðja aðilann í samstarfi þeirra en væntanlega verður einnig þriggja manna teymi hjá karlaliðinu.

Helena hefur verið erlendis undanfarin átta ár og spilað víða. Nú síðast spilaði hún með Polkowice í Póllandi, þar sem hún féll úr leik með liðinu í undnaúrslitum deildarinnar en liðið lenti í 4. sæti úrslitakeppninnar. Helena hefur einnig leikið með Mickolc í Ungverjalandi, Good Angels Kosice í Slóvakíu ásamt því að hafa spilað í bandaríska háskólakörfuboltanum í nokkur ár.

Helena verður í eldlínunni í sumar með íslenska kvennalandsliðinu á Smáþjóðaleikunum sem haldnir verða hér á landi í júní næstkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert