„Maður er í þessu til að spila“

Finnur Atli Magnússon ætlar í titilbaráttu með Haukum.
Finnur Atli Magnússon ætlar í titilbaráttu með Haukum. mbl.is/Ómar

Körfuknattleiksmaðurinn Finnur Atli Magnússon skrifaði í dag undir eins árs samning við Hauka en hann kemur til þeirra frá KR. „Þetta virðist vera rétt skref fyrir mig. Það er alltaf gaman að vinna með KR og allt það en stundum þarf maður að breyta til og þetta virðist vera rétti staðurinn fyrir mig,“ sagði Finnur í samtali við mbl.is eftir undirskriftina.

Hann segir að framundan séu spennandi tímar í Hafnarfirði. „Þetta lið er ekki lengur bara ungt og efnilegt heldur eru þetta orðnir öflugir leikmenn. Ég held að Haukarnir séu tilbúnir til að taka næsta skref og ef við fáum góðan Kana er allt hægt.“

Finnur segir að auðvitað sé erfitt að yfirgefa uppeldisklúbbinn. „Það er erfitt að fara frá liðinu sem þú elst upp hjá, þannig er það nú bara. Stundum þurfa leikmenn að prófa nýja hluti og það má segja að þetta sé taka tvö í þeim efnum hjá mér.“ Finnur spilaði með Snæfelli þar síðasta tímabil en gat lítið beitt sér vegna veikinda.

Ég var með blóðleysi, járnskort. Fékk einhver göt á magann og blóð lak út og allt í einu leið yfir mig á æfingu. Það er alveg búið núna. Ég hef farið í þrjú test og það er allt í góðu, ég er fullur af járni. Iron man eins og ég er kallaður!“

Finnur segir að hann vilji spila meira en hann gerði á síðasta tímabili. „Maður er í þessu til að spila og þegar maður fær ekki að spila þá er það alltaf erfitt. En ég spilaði 20 mínútur í leik á tímabilinu, hefði verið til í meira en í hóp eins og var hjá KR er það erfitt. Síðan undir lok úrslitakeppninnar var mitt hlutverk eiginlega dottið út. Við unnum og því var erfitt að vera fúll yfir því. En það er alltaf gaman að spila nóg í góðu liði.“

mbl.is