Ægir til liðs við KR-inga

Ægir Þór Steinarsson í búningi KR-inga í dag.
Ægir Þór Steinarsson í búningi KR-inga í dag. Ljósmynd/KR karfa á Facebook

Ægir Þór Steinarsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er genginn til liðs við KR-inga en körfuknattleiksdeild félagsins tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni fyrir stundu.

„Ægir mun án efa styrkja gott lið enn frekar og hjálpa til við að ná markmiðum tímabilsins," segir á síðunni.

Ægir var í íslenska landsliðinu sem lék í lokakeppni Evrópumótsins í Berlín fyrr í þessum mánuði. Hann er Fjölnismaður að upplagi og lék með Grafarvogsliðinu til 2012 en hefur verið leikmaður Sundsvall Dragons í Svíþjóð undanfarin tvö ár og var þar á undan einn vetur í bandarískum háskóla.

mbl.is