Getum gert mikið betur

Gunnhildur Gunnarsdóttir sækir að körfu Vals í kvöld.
Gunnhildur Gunnarsdóttir sækir að körfu Vals í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells, var sátt við sigurinn, en aftur á móti afar óánægð með spilamennsku liðsins þegar Snæfell bar sigur úr býtum gegn Val í 14. umferð Domino's deildar kvenna í körfuknattleik í Valshöllinni í kvöld. 

"Mér fannst spilamennskan alls ekki nógu góð ef ég á að segja alveg eins og er. Ég er ekki sátt með hvernig við mættum til leiks. Við náðum ekki að æfa mikið saman sem lið í jólafríinu, en það er hins vegar engin afsökun," sagði Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells í samtalið við mbl.is eftir leikinn.

„Það er gott að fá stigin tvö, en ég tel að liðið eigi mikið inni og eigum að geta gert mikið betur. Við áttum einn og einn góðan kafla, en þeir voru of fáir. Það er margt sem við þurfum að bæta fyrir leikinn í bikarnum á sunnudaginn," sagði Gunnhildur enn fremur.

Snæfell heldur áfram að elta Hauka eins og skugginn á toppi deildarinnar, en Snæfell er tveimur stigum á eftir toppliði Hauka.

Snæfell og Valur mætast aftur á sunnudaginn kemur á sama stað, en sá leikur er í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins.  

mbl.is