Vorum hér og þar, aðallega þar

Ingi Þór Steinþórsson ræðir við leikmenn sína á Hlíðarenda í ...
Ingi Þór Steinþórsson ræðir við leikmenn sína á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var léttur í lundu eftir leik liðsins gegn Val í 14. umferð Domino's deildar kvenna í körfuknattleik í Valshöllinni í kvöld. Snæfell hafði betur í leiknum, en lokatölur urðu 72:69 Snæfell í vil. 

Ingi Þór telur þó að það sé margt sem liðið þurfi að bæta á næstunni og ásigkomulagið á leikmönnum liðsins sé ekki eins og best verði á kosið. 

„Spilamennskan var ekki góð, en stigin voru frábær og það er það sem þetta snýst um. Við þurfum hins vegar að gera betur. Það er krefjandi mánuður framundan og það er verkefni okkar að bæta leik liðsins í komandi leikjum,“ sagði Ingi Þór í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld. 

„Við vorum hér og þar, aðallega þar, eins og segir í Nýtt líf. Við vorum ekki mikið saman í jólafríinu og náðum bara tveimur æfingum öll saman. Það sást í dag að samhæfingin er ekki eins og getur orðið þegar best lætur. Það er hins vegar engin afsökun og við verðum bara að gera betur og við þurfum að spila miklu betur þegar við mætumst aftur í bikarnum á sunnudaginn,“ sagði Ingi Þór enn fremur.  

mbl.is