Endaspretturinn góði skilaði engu

Rudy Gay hjá Sacramento og Kobe Bryant í leikslok í ...
Rudy Gay hjá Sacramento og Kobe Bryant í leikslok í nótt. AFP

Los Angeles Lakers vann upp 27 stiga forskot Sacramento Kings í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt en mátti svo sætta sig við tap eftir að heimamenn skoruðu síðustu fimm stigin, 118:115.

Kobe Bryant lék á ný með Lakers og skoraði 28 stig en sat á bekknum allan fjórða leikhlutann þegar lið hans sneri leiknum sér í hag. Eins og víðar var honum fagnað sérstaklega og stuðningsmenn merktir honum voru áberandi, en Kobe hættir í vor og leikur nú kveðjuleiki á hinum og þessum útivöllum. Hann lék sinn fyrsta leik á heimavelli Sacramento fyrir 20 árum. DeMarcus Cousins skoraði 29 stig fyrir Sacramento, tók 10 fráköst og átti 7 stoðsendingar.

Pau Gasol skoraði 17 stig og tók 18 fráköst fyrir Chicago Bulls sem vann Boston Celtics, 101:92, en þetta var hans nítjánda tvöfalda tvenna í vetur. Jimmy Butler skoraði 19 stig fyrir Chicago átti 10 stoðsendingar og Derrick Rose skoraði 18  stig. Þetta var sjötti sigur Chicago í röð og níundi 100 stiga leikur liðsins í röð.

James Harden skoraði 33 stig fyrir Houston Rockets sem vann Utah Jazz, 103:94, í viðureign liða sem virðast ætla að vera í slagnum um síðustu sætin í úrslitakeppninni í vetur.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Atlanta 98:126
Chicago - Boston 101:92
Houston - Utah 103:94
Sacramento - LA Lakers 118:115

mbl.is