Stjarnan heldur heljartökum sínum

KR-ingurinn Helgi Magnússon á auðum sjó í leiknum í kvöld
KR-ingurinn Helgi Magnússon á auðum sjó í leiknum í kvöld mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan úr Garðabæ heldur heljartökum sínum á Íslandsmeisturum KR í Dominosdeild karla í körfuknattleik en bikarmeistararnir unnu sætan útisigur í Frostaskjólinu í kvöld. Lokatölur urðu 74:73 fyrir Stjörnuna en staðan í hálfleik var 35:33, gestunum í vil. Stjarnan situr nú í þriðja sæti Dominosdeildarinnar með 16 stig, tveimur stigum á eftir KR.

Stjarnan hefur haft ágætt tak á KR undanfarin misseri og hafa Garðbæingar m.a. unnið Vesturbæjarstórveldið tvívegis í bikarúrslitaleik í Laugardalshöllinni. Bláklæddir gestirnir voru sprækari í fyrri hálfleik og náðu mest 11 stiga forystu í stöðunni 21:32. Ágætur sprettur heimamanna undir lok hálfleiksins sá þó til þess að forysta Stjörnunnar var aðeins tvö stig að honum loknum, 33:35.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR hefur líklega predikað vel yfir sínum mönnum í hálfleiknum, því að KR-ingar mættu gríðarlega ákveðnir til leiks. Íslandsmeistararnir léku miklu betur en í fyrri hálfleik og komust fljótlega sex stigum yfir.  Ægir Þór Steinarsson og Michael Craion fóru mikinn í vörn og sókn og Stjörnumenn virtust slegnir út af laginu. Þessi forysta hélst allt til loka þriðja leikhluta en staðan að honum loknum var 57:51, KR í vil.

Stjarnan var hreint ekki á þeim buxunum að gefast upp og með mikilli baráttu unnu gestirnir hægt og bítandi upp forskotið. Ágúst Angantýsson kom svo Stjörnunni tveimur stigum yfir með þriggja stiga körfu þegar um fimm mínútur voru til leiksloka og mikil spenna í Frostaskjólinu. Barningurinn hélst svo allt til leiksloka og lokamínútan var æsispennandi.

Alonzo Coleman fór af velli með fimm villur þegar um 80 sekúndur voru eftir og munar um minna í liði Stjörnunnar. Michael Craion gerði vel að fiska ruðningsvillu á Coleman en Stjörnumenn voru alls ekki sáttir við þann dóm.  Marvin Valdimarsson kom Stjörnunni fjórum stigum yfir þegar mínúta var eftir og unnu svo boltann. Ægir Þór stal hins vegar boltanum af Shouse og fékk í kjölfarið tvö vítaskot. Ægir skoraði úr báðum skotum og allt á suðupunkti. Marvin misnotaði þriggja stiga skot og KR fékk lokasókn leiksins í stöðunni 72:74. Pavel Ermolinskji fékk tvo vítaskot þegar fimm sekúndur voru eftir en landsliðsmaðurinn hitti aðeins öðru skotinu og Stjarnan fagnaði sætum sigri.

Marvin Valdimarsson skoraði 19 stig fyrir Stjörnuna en stigahæstur í liði KR var Michael Craion með 23 stig.

40. KR – Stjarn­an 73:74 – Stjarnan vinnur eftir æsilegan lokakafla! Fjórði leikhluti var í járnum allan tímann en það eru gestirnir úr Garðabæ sem halda áfram að reynast KR erfiðir. Nánari umfjöllun ásamt viðtölum kemur von bráðar hingað inn. Takk í kvöld.

30. KR – Stjarn­an 57:51 – Íslandsmeistararnir byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og drifnir áfram af orkuboltanum Ægi Þór Steinarssyni, komust KR-ingar fljótlega sex stigum yfir. KR lék firnasterka vörn og í sókninni skiptust Ægir og Michael Craion á að gera Stjörnumönnum lífið leitt. Heimamenn héldu frumkvæðinu út leikhlutann og þrátt fyrir ágæta baráttu gestanna eru það KR-ingar sem halda inn í fjórða leikhlutann með sex stiga forystu  Stjarnan þarf að fá meira framlag frá Justin Shouse en honum til vorkunnar, þá er hann búinn að vera með Ægi suðandi í eyrunum á sér allan leikinn og virkar einfaldlega örþreyttur. Craion hefur skorað 21 stig fyrir KR en Marvin Valdimarsson er stigahæstur Stjörnumanna með 14 stig.

20. KR – Stjarnan 33:35 – Það er ekki hægt að halda því fram að skemmtilegasti körfubolti vetrarins sé leikinn hér í Frostaskjóli. Bæði lið eru óstyrk og hikandi í sínum aðgerðum og kappið ber fegurðina oftast að ofurliði. Stjarnan náði góðum spretti og náði mest 11 stiga forystu en heimamenn fundu fjölina sína síðustu tvær mínútur fyrri hálfleiks og eru því aðeins tveimur stigum undir í hálfleik. Marvin Valdimarsson og Tómas Heiðar Tómasson eru stigahæstir Garðbæinga með 10 stig hvor. Michael Craion og Ægir Þór Steinarsson hafa sömuleiðis skorað 10 stig hvor fyrir KR. Við fáum okkur tíu dropa af rjúkandi KR-kaffi og mætum svo aftur með seinni hálfleikinn á mbl.is

10. KR – Stjarnan 16:20 – Gestirnir úr Garðabænum hafa nauma forystu að loknum fyrsta leikhluta. Sóknarleikur KR er heldur einhæfur þar sem allt byggist á því að koma boltanum niður á blokkina þar sem hinn frábæri Michael Craion á svo að búa eitthvað til. Craion er kominn með átta stig. Aðeins þrír leikmenn KR eru komnir á blað á meðan sex leikmenn Stjörnunnar skipta stigunum á milli sínen þar er Marvin Valdimarsson stigahæstur með átta stig. KR komst í 12-6 en með öguðum leik hafa Stjörnumenn skorað 14:4 á lokamínútum leikhlutans og leiða sanngjarnt. Eins og fyr­ir­fram var bú­ist verður þetta hörku leikur tveggja góðra liða.

KR-ingar eru í öðru sæti deildarinnar með 18 stig eftir 11 leiki og myndu með sigri ná Keflvíkingum að stigum á toppnum.

Stjörnumenn eru annað tveggja liða sem hafa sigrað meistara KR í vetur og þeir eru með 14 stig í fjórða sætinu, jafnir fjórum öðrum liðum.

Ægir Þór Steinarsson úr KR og Tómas Þórður Hilmarsson úr ...
Ægir Þór Steinarsson úr KR og Tómas Þórður Hilmarsson úr Stjörnunni. mbl.is/Eggert
mbl.is