Leikmenn þurfa að líta í eigin barm

Sverrir Þór Sverrisson hefur tekið við þjálfun kvennaliðs Keflavíkur í ...
Sverrir Þór Sverrisson hefur tekið við þjálfun kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik af Margréti Sturlaugsdóttur sem sagt var upp á föstudaginn. Eggert Jóhannesson

„Það var haft samband við mig seint á föstudagskvöld til að kanna hvort það væri einhver séns á að fá mig til að taka við liðinu. Ég hafði því ekkert mikinn tíma til að hugsa mig um, en ákvað að hitta forráðamenn Keflavíkur á laugardeginum og svo var endanlega gengið frá þessu þá um kvöldið,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, sem hefur ákveðið að snúa aftur í þjálfun og tók um helgina við kvennaliði Keflavíkur í körfubolta eftir að Margréti Sturlaugsdóttur var sagt upp. Samningur Sverris gildir til loka leiktíðarinnar.

Sverrir þjálfaði karla- og kvennalið Grindavíkur síðasta vetur en ákvað að hætta með þau síðasta vor og taka sér gott frí frá körfubolta, eða eins og hann orðaði það sjálfur í viðtali við Karfan.is: „Þetta er bara komið gott í bili og það er alveg á tandurhreinu að á næsta tímabili ætla ég mér að vera í algeru fríi.“ Sverrir gengst við því að hafa látið þessi orð falla í vor, en áhuginn á að snúa aftur kviknaði strax þegar Keflavík hafði samband: „Þetta var bara svona í vor, og engin lygi hjá mér. Núna eru liðnir átta mánuðir síðan ég hætti í Grindavík, og löngunin var til staðar þegar kallið kom núna. Ég ætlaði mér að vera í fríi út veturinn en var orðinn klár í slaginn. Svo var þetta líka leiðinleg staða sem var komin upp í Keflavík, Magga látin hætta, liðið þjálfaralaust og kannski ekkert mest spennandi að taka við liði undir svona kringumstæðum. Ég ákvað að gera það. Þetta er búið að vera ótrúlega gott frí sem ég er búinn að fá, það fyrsta sem ég tek frá íþróttum, og kannski þarf ég bara ekkert meira en nokkra mánuði,“ sagði Sverrir.

Nánar er rætt við Sverri í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.